148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[18:02]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég get glatt hæstv. fjármálaráðherra með því að minn ágæti flokkur á landsþingi sínu um þarsíðustu helgi samþykkti stefnu sem er afar skýr í þessum efnum, þar sem þessu er lýst einfaldlega með orðunum: Selja skal bankana. Þannig að já, mér líst ágætlega á þá hugmynd að losa um eignarhlutdeild ríkisins í bönkunum og nota þá til að greiða upp skuldir. Ég er meira að segja skýrari í minni tillögu en ríkisstjórnin er, vegna þess að hér er skýrt tekið fram að öllu óreglulegu einskiptisfjárstreymi ríkissjóðs skuli varið til niðurgreiðslu skulda. Það er auðvitað, eins og er rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra, stóra atriðið í þessu vegna þess að það er leiðin til að lækka skuldir miklu hraðar. Hitt er líka rétt að alltaf má nota þau rök að 10 milljarðar í viðbót séu ekki svo mikið. En 10 milljarðar í viðbót sem við greiðum niður núna eru hugsanlega 10 milljarðar sem mynda svigrúm þegar við þurfum á því að halda í næstu niðursveiflu.