148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[18:27]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var mjög áhugaverð ræða, hún lýsti dálítið rökum um það hvernig við gætum náð sjálfbærni í ferðaþjónustu. Þetta er vísir að þeim rökum sem vantar einmitt í fjármálastefnuna. Það var því mjög áhugavert að heyra þessa ræðu. Kannski er hún vísbending um stefnu stjórnvalda í þessum geira. Við getum þá kannski stuðst við það og notað til að skoða hvernig gengur.

Í fjármálastefnunni er nefnilega lítið talað um ferðaþjónustu. Tvennt er nefnt, að vísu líka í meirihlutaálitinu, og bent á hve ferðaþjónusta hefur verið rosastór hluti af viðskiptajöfnuði á undanförnum árum. Við þurfum að passa okkur á þeim sveiflum sem geta orðið og líta út fyrir að verða, enda varaði Viðskiptaráð Íslands við því að sá viðskiptajöfnuður sem spáð er sé mjög ólíklegur miðað við stöðuna það sem af er ári.

Mig langaði til að fræðast nánar hjá hv. þingmanni um rökin fyrir því að gera ferðaþjónustuna ekki að einum stórum stólpa. Hver er stefnan í því að vinna upp á móti? Án þess að ýta stólpanum niður, hvaða stólpa erum við að byggja upp á móti? Kannski er það ekki alveg sanngjarnt en mig langaði líka að halda aðeins áfram umræðunni um grunngildin. Um grunngildið gagnsæi segir að það felist í því að sett séu fram auðsæ og mælanleg markmið til meðallangs tíma um þróun þannig að hægt sé að gera reglulegan samanburð á markmiðum og árangri með skýrum mælikvörðum. Þetta er í framhaldi af ræðu hv. þm. Ólafs Þórs Gunnarssonar sem sagði að grunngildin væru óskýr, en þau eru það einmitt ekki út af grunngildi um gagnsæi. Ég vildi benda á þá umræðu og halda kannski aðeins áfram með hana.