148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[18:34]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir þetta innlegg. Oft hefur mér fundist í þessari umræðu að við séum að ræða formið en ekki efnið. Ég er mjög ánægður með að þessi umræða fari af stað hér. Mín skoðun er sú að þetta sé grundvallarmál í efnahagslífi þjóðarinnar, í fjármálastefnunni og í því, þegar við horfum fram á veginn, hvernig við munum takast á við þessi mál. Hvort sem það er vegna sjálfbærni í ferðaþjónustu út frá umhverfislegum, efnahagslegum eða samfélagslegum áhrifum — ég held raunar að samfélagslegi hlutinn verði það sem verður fyrst að mögulegu vandamáli, og ég held reyndar að þau séu að skapast á ákveðnum svæðum og í ákveðnum samfélögum. Stefnumótun í þessum málum er lykilmál. Varla finnst sá þáttur sem mun skipta okkur meira máli hvað varðar efnahagslífið. Á síðasta ári komu 42% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar úr þessari atvinnugrein en 70% af þjónustutekjunum er ferðaþjónusta. Við erum komin á þann stað.

Ég ætlaði að spyrja hv. þingmann: Nú er þetta stærsta atvinnugrein í heimi. Ætli meðalvöxtur sé ekki 4% á heimsvísu, ef við förum aftur til 1959. Hjá okkur Íslendingum er þessi meðalvöxtur 8–10% frá árinu 1950. Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að hægt sé að stýra þessu ferli varðandi fjölda þeirra ferðamanna sem koma til landsins? Hvernig geta menn raunverulega tekist á við þann þátt?