148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[18:38]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Svo að það misskiljist ekki þá átti ég við varðandi samfélagslegu áhrifin að nú þegar sé töluverð áraun orðin á ákveðnum samfélögum vegna fjölda ferðamanna og slíkra þátta. Hvað varðar hinn punktinn, varðandi Dubai norðursins, getum við hugsanlega sagt að sá tímapunktur sé nú þegar kominn. Ef við skoðum f flugrekstur á Íslandi er hann um 14% af landsframleiðslunni, svo er áætlað í dag. Hann var 6,6% 2010, samkvæmt skýrslu sem var unnin þá, en menn meta hann á 14% í dag. Ekkert slíkt samfélag er til í hinum vestræna heimi, með slíkt hlutfall í landsframleiðslu, og þótt víða væri leitað. Ég held að þessi tímapunktur sé kominn og menn þurfa að gera sér grein fyrir því.

Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir að koma með þetta inn í umræðuna um fjármálastefnuna. Vonandi tökum við þetta lengra og eigum góðar samræður um þessi mál.