148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[18:59]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar og að fara í andsvör við mig. Það er alveg rétt að við vorum saman í ríkisstjórn ekki alls fyrir löngu og studdum þá sömu fjármálastefnuna. Það er auðvitað alveg eðlilegt að þegar aðrir flokkar koma að ríkisstjórnarborðinu þurfi að horfa á ýmis sjónarmið.

Hv. þingmaður spyr mig hvort ég telji rétt að auka útgjöldin, ég held hann hafi notað það orð, og greiða niður minna af skuldum. Ég held að það sjónarmið eigi vel við, að það að fara í uppbyggingu innviða, sem eru jú í einhverjum tilfellum aukin útgjöld, geti líka verið ákveðin leið til að viðhalda fjárfestingu og draga úr fjárfestingarþörf síðar, þannig að vel er hægt að færa rök fyrir því að við séum í ákveðinni skuldastöðu við innviðina. Ég nefni til að mynda vegakerfið þar sem gríðarlegir fjármunir liggja undir skemmdum. Þar af leiðandi er mjög skynsamlegt að fara í það að viðhalda þeirri fjárfestingu þó að það kalli á að við greiðum örlítið minna niður af skuldum okkar, það sé einhvers konar leið til að greiða niður skuldir með viðhaldi fjárfestinganna.

Ég get alveg verið sammála hv. þingmanni um mikilvægi aga í útgjöldum og að það sé stöðugt horft til þess að greiða niður skuldir, en ég segi líka að það séu fleiri sjónarmið sem koma upp í þessu sambandi. Ég hygg að með þessari fjármálastefnu séum við að stíga ákveðin skref í að ná saman þessum sjónarmiðum. Ég held að það sé til góðs. Ég held að það sé einmitt þess vegna sem svo ríkur stuðningur er við ríkisstjórnina eins og raun ber vitni.