148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[19:01]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það má vissulega færa rök fyrir því að innviðauppbygging sé ákveðin fjárfesting eða leið til að viðhalda fjárfestingu. Mér sýnist það samt ekki vera rök sem margir af þeim aðilum sem gagnrýna þetta, segjum Viðskiptaráð eða Samtök atvinnulífsins, eru að kaupa, það eru rök sem ég hef oft heyrt einmitt frá þingmönnum Vinstrihreyfingarinnar – grænu framboði, það er sjaldgæfara að ég heyri þau frá Sjálfstæðisflokknum eða kannski hagsmunaaðilum sem myndu jafnan teljast hægra megin í hinu pólitíska litrófi.

Mig langar örlítið að spyrja hv. þingmann um regluna sem var í fjármálastefnu fyrri ríkisstjórnar um að öllum óreglulegum og einskiptistekjum ríkissjóðs skuli varið til niðurgreiðslu skulda. Nú er sú regla farin úr texta tillögunnar þó að tæpt sé örlítið á þeim sjónarmiðum í greinargerðinni. Mig langar örlítið að vita hverjar væru hugmyndir hennar um þetta. Segjum að svo færi að við myndum selja eitthvert ríkisfyrirtæki, banka eða fyrirtæki í eigu ríkisins, hvað ætti að nota stóran hluta í það að greiða niður skuldir? Er það 100% eins og ég hefði lagt til, eða er það 0% og að setja allt í það að byggja upp og viðhalda þannig fjárfestingum eins og hv. þingmaður hefur orðað það?