148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[19:04]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður sagði að það væru næg skilyrði að skýra og túlka grunngildin eins og fjármálaráð gerði og hrósaði fyrir. Það er hins vegar fyrsti hlutinn. Fjármálastefnan er í tveimur þáttum, annars vegar skal stefnan afmarka umfang, afkomu og þróun eigna, skulda og langtímaskuldbindinga, hins vegar er greinargerð um hvernig grunngildum verði fylgt varðandi alla þá stefnu sem var sett fram í fyrri liðnum.

Í því ferli þarf að skýra grunngildin aðeins. Það er gert, en það er ekki útskýrt hvernig stefnan uppfyllir síðan þau grunngildi. Það er bara sagt að hún geri það. Til dæmis er talað um að það að stofna þjóðarsjóð sé sjálfbærnimarkmið en ekki útskýrt af hverju. Það er sagt að niðurgreiðsla skulda sé líka ákveðin sjálfbærni en ekki sagt af hverju. Það er einmitt dæmi um það sem ráðuneytið segir, að ákveðið skuldahlutfall ríkissjóðs búi til aðgengi að mörkuðum, þ.e. að það að vera með ákveðnar erlendar skuldir búi til aðgang að mörkuðum. Hins vegar fáum við umsagnir sem segja okkur að greiða niður allar erlendar skuldir. Það myndi þá loka ákveðnum mörkuðum og væri ekki dæmi um sjálfbærni hvað það varðar.

Skilgreiningin á grunngildunum er þarna, túlkunin á þeim er þarna, þ.e. forsendurnar sem stjórnvöld gefa sér, en það vantar rökstuðninginn fyrir því af hverju stefnan uppfyllir sjálfbærnina. Það er ekki nóg að segja bara: Niðurgreiðsla skulda er sjálfbær, það verður að segja af hverju. Það verður að segja að ef við förum niður fyrir það skuldaviðmið sem myndi loka mörkuðum eða takmarka aðgang er það ekki lengur orðið sjálfbært.

Ég vona að þetta hafi komið skýrt fram núna.