148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[19:10]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við séum bara á öndverðum meiði um hvort þetta ákvæði sé uppfyllt eða ekki. Ég get reyndar ekki betur séð á þeirri umræðu sem ég náði að hlusta á í þingsal um þetta mál en að margir séu sammála um að greinargerðin gæti verið betri, það væri hægt að fara ítarlegar út í að færa þessi rök. Ég hef samt ekki heyrt mjög marga í þessum sal halda því fram að það sé bara alls ekki gert nema mögulega hv. þingmann þannig að ég held að flestir séu sammála því að þessi rök séu færð, en spurningin er hvort fara mætti enn lengra í þeim efnum.

Vegna þess að ég veit að hv. þingmaður hefur mikinn áhuga á forminu sem slíku langar mig líka að benda á það sem m.a. kemur fram í umsögn efnahags- og viðskiptanefndar þar sem er tekið undir ákveðin sjónarmið líka frá fjármálaráði, að tala um einhvers konar bil, ekki eina tölu, og einnig ábendingar um að þróa þurfi frekar spálíkönin. Allt eru þetta dæmi um að ég held að við séum á leið í rétta átt, en við getum algjörlega gert betur. Það þýðir ekki að við uppfyllum ekki skilyrðin og gerum ekki vel í dag, sem ég tel vera.