148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[20:52]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að reyna að klára að fara yfir nefndarálit mitt sem ég náði ekki í fyrstu atrennu og byrja á umsögnunum.

Flestir umsagnaraðilar voru sammála um það að hagspáin væri of bjartsýn. Sú skoðun staðfestist í uppfærðri þjóðhagsspá sem var gefin út 23. febrúar síðastliðinn. Þeir umsagnaraðilar sem komu fyrir nefndina eftir að hagspáin var uppfærð töldu líklegt að enn gætti of mikillar bjartsýni. Samtök fjármálafyrirtækja komast svo að orði að engin efnahagsstofnun hefði spáð efnahagssamdrætti fyrir fram. Umsagnaraðilarnir voru hins vegar yfirleitt samdóma um að forsendur fjármálastefnunnar væru ólíklegar og að mjúk lending væri ólíklegasta niðurstaðan. Í greinargerð fjármálastefnunnar er t.d. sagt að gert sé ráð fyrir því að hagvöxtur ársins 2017 verði 4,9% en í endurskoðaðri þjóðhagsspá í febrúar í ár er gert ráð fyrir því að hagvöxtur ársins 2017 hafi verið 3,8%. Samkvæmt þjóðhagsspá sem fjármálastefna byggist á er gert ráð fyrir 3,1% hagvexti árið 2018 en í uppfærðri spá er gert ráð fyrir 2,9% hagvexti. Til viðbótar við þetta fór eldri hagvaxtarspá fyrir árið 2017 úr 6% niður í þau 4,9% sem fjármálastefnan byggist á. Í áliti meiri hluta fjárlaganefndar segir að forsendur miðað við þá hagspá sem fjármálastefnan byggist á hafi ekki breyst mikið. Á einu ári hefur spáin um hagvöxt farið úr því að vera 6% fyrir árið 2017, með áætluðum raunhagvexti upp á 3,8%, niður í 2,9% fyrir árið 2018. Það er mikil breyting. Gögnin taka undir álit umsagnaraðila þegar kemur að bjartsýni.

Viðskiptaráð Íslands gerir athugasemd við nokkur atriði í fjármálastefnunni. Ráðið varar við spá um viðskiptajöfnuð. Miðað við halla á vöruskiptajöfnuði það sem af er ársins verður að teljast ólíklegt að spá Hagstofunnar um 140 milljarða kr. viðskiptajöfnuð rætist. Einnig ber ráðið saman afgang af rekstri hins opinbera við síðustu fjármálastefnu og gerir athugasemd við að aukinn afgangur skýrist nær eingöngu af 25–40 milljarða kr. betri afkomu opinberra fyrirtækja án þess að nokkur rök séu færð fyrir bættri afkomu þeirra fyrirtækja, hvorki í greinargerð þingsályktunartillögunnar um fjármálastefnu, í upplýsingaskjali frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu né í áliti meiri hluta fjárlaganefndar þótt það komi fram eftir ábendingar Viðskiptaráðs. Meiri hluti fjárlaganefndar tekur þá undir að ekki sé stætt á að byggja aukna afkomu á betri afkomu opinberra fyrirtækja.

Ríkisendurskoðun leggur áherslu á að lög um opinber fjármál kveði á um að fjármálastefnan eigi að fjalla um langtímaskuldbindingar og helst lífeyrisskuldbindingar. Óbreytt framsetning langtímaskuldbindinga ríkisins miðað við fyrri fjármálastefnur telst hins vegar ekki uppfylla að fullu ákvæði laga um opinber fjármál að mati Ríkisendurskoðunar. Þá bendir Ríkisendurskoðun á að fjármálastefnan sýni ekki þróun eigna heldur séu þær jafnaðar að hluta til á móti skuldum. Enda þótt ekki hafi enn verið lokið við vinnu vegna stofnefnahagsreikninga telur Ríkisendurskoðun að nú þegar liggi fyrir upplýsingar um marga eignaflokka ríkissjóðs, svo sem eignarhluti í opinberum fyrirtækjum, sem ætti að vera hægt að birta upplýsingar um í fjármálastefnunni.

Dr. Ólafur Margeirsson fjallaði sérstaklega um 7. gr. laga um opinber fjármál og rökstuddi hvers vegna fella ætti þá grein úr lögunum. Afleiðingin af þeirri lagagrein er takmörkun á nettóaukningu fjármálalegra eigna innlenda opinbera geirans, að aukningin fari ekki niður fyrir 2,5% af landsframleiðslu. Þar með sé búið að takmarka möguleika einkageirans til þess að byggja upp fjárhagslegar nettóeignir í innlendum gjaldmiðli nema viðskiptajöfnuðurinn verði þeim mun meiri á sama tímabili. Þetta var mjög áhugaverð og fersk umsögn að lesa, með flottum stærfræðiformúlum, eða kannski nákvæmar sagt hagfræðiformúlum. Dr. Ólafur Margeirsson leggur áherslu á að þetta sé bókhaldsleg og stærðfræðileg staðreynd. Það sé ekkert annað álit í boði um þetta atriði.

Aðeins um sveitarfélögin. Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga segir að samráðsvettvangur um opinber fjármál hafi batnað mjög á undanförnu ári. Haldnir séu reglulegir fundir og að samráðið sé í góðum farvegi. Í umsögninni er lögð áhersla á að það sé á ábyrgð ríkisins að ná endum saman með tilliti til fjármálastefnunnar. Umfang ríkisins sé einfaldlega svo margfalt viðameira en starfsemi sveitarfélaganna að ábyrgðin á afkomunni hljóti fyrst og fremst að hvíla á ríkissjóði. Sveitarfélögin séu þó að skila sínu til afkomunnar, þrátt fyrir að A-hluti sveitarfélaga sé ekki sjálfbær með tilliti til þess að ekki sé bæði hægt að borga niður skuldir og fara í þær nauðsynlegu framkvæmdir sem eru fyrirsjáanlegar á næstu árum.

Gert er ráð fyrir að rekstrarniðurstaða sveitarfélaga á árinu 2018 verði jákvæð um 7 milljarða kr. Það er þrátt fyrir um 9 milljarða kr., eða 31%, aukningu á fjárfestingum umfram gatnagerðargjöld en á móti eiga að koma tekjur af sölu eigna og byggingarréttar. Á árunum 2018– 2021 er gert ráð fyrir því að skuldir og skuldbindingar A-hluta sveitarfélaga lækki sem hlutfall af tekjum úr 106% í 96%. Sveitarfélögin eru því að skila sínu til afkomu opinberra aðila í heild, það er undir ríkinu komið að ná endum saman.

Aðeins almennt um fjármálastefnuna sjálfa og álit meiri hlutans. Það er athyglisvert misræmi að finna í textanum, fyrir utan það sem ég hef sagt áður um grunngildin og ítreka kannski aðeins á eftir. Í fjármálastefnunni er lögð til aukning til innviða, aukning í heilbrigðiskerfi, aukning í menntamál. Þetta eru allt aukin útgjöld. Lagt er til að stofna þjóðgarð sem á að fjármagna með arðgreiðslum úr ríkisfyrirtækjum. Þá eru þær arðgreiðslur ekki notaðar í önnur verkefni og þetta er notað sem sjálfbærnirök sem þýðir að þetta kemur til með að hafa einhver áhrif mun seinna, líklega ekki á tíma þessarar fjármálastefnu. Lögð er til skattalækkun, þ.e. minni tekjur á móti þessum auknu útgjöldum til innviða heilbrigðis- og menntamála. Talað er um lýðfræðilegar breytingar sem koma til með að kosta hið opinbera meira. Það er samt talað um auknar tekjur. Það er dálítið óljóst hvaðan þær muni koma því að sagt er að tekjur eigi að vaxa í takt við verga landsframleiðslu en verið er að tala um skattalækkanir líka. Þetta er pínu óljóst. Minnst er á kjarasamninga sem skattalækkunin væntanlega er olía á, smurolía þar á, ekki hin olían. Svo er talað um stöðu yngri kynslóða á húsnæðismarkaði sem væntanlega er einhver aukakostnaður í.

Eins og hv. þm. Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar segir, verður einhvers konar jafnvægislist að stilla þetta af, þessa útgjaldaaukningu, þessa skattalækkun, þennan aukna kostnað vegna lýðfræðilegra breytinga og stöðu á húsnæðismarkaði, sem verður mjög áhugavert að fylgjast með hvort náist. Ég sé ekki hvernig. Í andsvörum við hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur var eina hugsanlega lausnin í þessu sú að hagspáin, sem fjármálastefnan byggir á, myndi ekki standast heldur þyrfti hagvöxtur aukast. Það væri eina leiðin til að ná þessum aukatekjum. Milljarðarnir sem maður sér þarna í minnkun á afkomu miðað við fyrri fjármálastefnu, miðað við skattalækkun og þar fram eftir götunum, maður sér ekki margra milljarða myndast í öll þessi verkefni til aukningar í innviði heilbrigðiskerfis, menntamála og þess háttar.

Í fjármálastefnu og áliti meiri hluta er gert ráð fyrir því að fjárfesting í heild sinni muni vaxa um 21% á árunum 2018–2023. Gert er ráð fyrir að fjárfesting hins opinbera haldi í við hagvöxtinn og verði að meðaltali 5,2% á tímabilinu. Samt er gert ráð fyrir að tekjur og útgjöld vaxi í takti við verga landsframleiðslu. Þarna er áhugavert að sjá að ef á að auka í innviðauppbyggingu en fjárfesting hins opinbera haldi samt bara í við hagvöxtinn sé ég ekki það sem aukningu. Þá er það bara ákveðinn stöðugleiki. Það er verið að nýta sama hlutfall af vergri landsframleiðslu til uppbyggingar í samfélag sem krefst aukinnar þjónustu, því að það verður einfaldlega stærra í sniðum og fleiri sem krefjast þjónustunnar. Það er óbreytt hlutfall en ekki aukning. Það er því ákveðið misræmi á sumum stöðum í fjármálastefnunni og áliti meiri hluta sem ég hefði alveg viljað fá skýringar á í umræðunni. Ég er búinn að vera aðeins að leita eftir þeim.

Það er vinsælt að vísa í að hagkerfið muni ná mjúkri lendingu, en eins og umsagnaraðilar sögðu spáir enginn mjúkri lendingu. Það gerist bara ekki. Og enginn veit einu sinni hvernig á að lenda hagkerfi mjúklega því að enginn hefur gert það áður. Ef við prófuðum að fara upp í háskóla og spyrja hvernig eigi að gera það þá myndu þeir væntanlega mæla með því, eins og fjármálaráð gerir, að auka aðhaldsstigið og vona það besta. En þeir vita það kannski ekki því að það hefur aldrei verið gert, aldrei gerst áður.

Um útgjaldaaukninguna. Ferðaþjónustan er áhugavert umræðuefni eins og hefur komið fram í umræðunni. Meginskýringin, eins og segir í áliti meiri hlutans, á hagvexti og viðskiptajöfnuði sem við höfum upplifað liggur í ferðaþjónustunni. Hlutdeild ferðaþjónustunnar í útflutningstekjum nam um 42% í fyrra. Til samanburðar nam hlutdeild sjávarútvegs og áls samtals 33% af útflutningstekjum í fyrra. Nóg er álið, mörg egg í sömu körfu. Þegar ferðaþjónustan er orðin 42% af útflutningstekjunum þýða allar sveiflur þar, eins og varað er við í álitinu, að við þurfum að gefa því einstaklega góðan gaum hvað er að gerast í ferðaþjónustunni. Hún er ekkert gríðarlega fyrirsjáanleg. Bæði hvað varðar efnahagslegu áhrifin og umhverfisáhrifin, sem hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson kom inn á í ræðu sinni, er þetta gríðarlega stórt verkefni og stór áskorun á þessum tíma fjármálastefnunnar að halda vel utan um. Þar minnist ég helst á skortinn á nýsköpun sem mér finnst vanta í fjármálastefnuna og sást í fjárlögum 2018 að ekkert var lagt umfram það í nýsköpun. — Það er mjög hentugt að hæstv. ráðherra nýsköpunar gangi einmitt fram hjá þegar ég minnist á það. — Eitt af lykilatriðum þess að hafa sjálfbært hagkerfi er nýsköpun, að búa til þessi nýju verðmæti og tækni sem taka við af þessum stóru og sveiflukenndu áhættuþáttum í hagkerfinu.

Að lokum vil ég endurtaka hið mikilvæga atriði sem mér finnst vanta í fjármálastefnuna. Það er þessi greinargerð sem ég hef talað um varðandi grunngildi. Jú, fjármálastefnan útskýrir grunngildin aðeins betur og fer aðeins nánar í það hvað þau þýða fyrir þessi stjórnvöld. En að öðru leyti, þegar minnst er á einhvers konar stefnu eins og að stofna þjóðarsjóð er bara sagt að það stuðli að sjálfbærni, það er ekki útskýrt hvernig. Með lækkun skulda er bara sagt að það sé líka sjálfbærniviðmið, sem ég gæti alveg rökstutt, ekkert mál, en það er bara ekki gert. Það kom fram í ræðu og andsvörum við hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur að það er ákveðið viðmið á skuldum hins opinbera sem lýtur að aðgangi að mörkuðum og ef við værum farin að lækka skuldir niður fyrir það og takmarka aðgengi að mörkuðum og hækka lánakostnað almenna markaðarins fer það gegn sjálfbærni. Það þarf að útskýra hvernig skuldalækkun stuðli að sjálfbærni, einfaldlega með því að segja að það muni ekki vera gengið á aðgengi hins almenna markaðar að erlendum lánum eða eitthvað því um líkt, þá væri búið að útskýra það. Það er ekkert endilega rosalega flókið, það bara vantar.

Þetta leiðir mig að þessari setningu sem er sögð í fjármálastefnunni, með leyfi forseta:

„Alþingi staðfestir að fjármálastefna þessi sé samkvæm þeim grunngildum og skilyrðum sem kveðið er á um í 2. mgr. 6. gr. og 7. gr. laga um opinber fjármál.“

Það vantar rökstuðninginn sem er eitt af skilyrðunum í lögum um opinber fjármál. Ég hef reynt að rekja það hvernig væri hægt að birta þau rök og nota, en þau er (Forseti hringir.) ekki að finna. Þar af leiðandi finnst mér eina lausnin vera að vísa stefnunni aftur til ríkisstjórnarinnar til þess að hún geti rökstutt hana, alveg nákvæmlega eins og með tillögu dómsmálaráðherra að skipun dómara, hún þurfti að rökstyðja hana.