148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[21:10]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla til að byrja með að vona að ég verði ekki fjármálaráðherra. Ég hef engan áhuga á því. Prósentuhlutföllin eins og ég talaði um áður væru væntanlega mjög svipuð óháð ríkisstjórn. Þetta er 0,1% til eða frá. Það yrðu ekkert stórar breytingar á tölunum þó að það muni nokkrum milljörðum, tveimur eða þremur, á hverju 0,1%. Það segir samt eitthvað. Prósentuhlutföllin væru ekkert rosalega mikið öðruvísi. Út af ábendingunum hefði ég alveg tekið undir að hækka aðhaldsstigið aðeins meira og hafa aðeins meiri afkomu. Við Píratar lögðum líka fyrstir fram skuggafjárlög fyrir kosningar. Þar vorum við með ýmsar hugmyndir um tekjuöflun. Það er hægt að fletta upp í þeim. Hausinn á mér virkar þannig að fyrst það er skrifað í tölvunni geymi ég upplýsingarnar þar án þess að hafa þær í hausnum. Ég vísa í skuggafjárlögin, þau eru til á netinu.

Bregðast við ábendingum? Já, alveg tvímælalaust. Út frá samvisku og af því að ég er svo kassalaga eins og hv. þingmaður vísaði í með formið, ég tek heils hugar undir það, gæti ég ekki annað en rökstutt það sem vantar upp á, fyllt upp í rökholurnar ef svo má segja. Það er það sem drífur mig áfram. Ég finn svoleiðis mjög auðveldlega. Ef ég væri í fjármálaráðherraskóm vona ég að ég myndi til að byrja með ekki láta svoleiðis frá mér. Ef það væri fjármálaráðherra Pírata væri ég þar til að byrja með og vona að ég fengi ekki svoleiðis formrök á mig á móti en myndi reyna að laga það ef svo bæri undir.