148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[21:12]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Eins og við vitum er nefnilega ekki einfalt að leysa úr þessu. Ég er búin að skoða skuggafjárlög Pírata, gerði það fyrir kosningar og aftur áðan. Það væri áhugavert að vita hvort þingmaðurinn teldi að þau gætu gengið upp og hvort þau áform hefðu breyst eitthvað í ljósi stöðunnar akkúrat núna. Um leið og við hækkum aðhaldsstigið verðum við að horfa til þess að til framtíðar erum við að setja stór verkefni af stað sem ég held að séu dýrari en ef við myndum fresta þeim. Þess vegna finnst mér mikilvægt að Píratar setji fram að mínu viti meiri pólitík og minni excel þegar þeir tala í pontu. Mér finnst vanta að heyra meira frá ykkur um hvernig þið sjáið tekjuöflunina, hvaða framkvæmdir og áherslur ættu að vera o.s.frv. því að fjármálastefnan byggir á því að horfa til þess þótt hún sé ekki útfærslan heldur ramminn.

Eins og ég sagði áðan finnst mér vanta í þetta nefndarálit einhverjar tillögur um hvernig þetta ætti að vera öðruvísi en málið er lagt hér fram. Það er bara gagnrýni á og tekið undir að mestu leyti með fjármálaráði en í raun er fjármálaráð ekki með nema að einhverju leyti ábendingar um viðbrögð. Það er líka tekið fram hjá þeim að við sumu sé hreinlega erfitt að bregðast. Þess vegna spyr ég svolítið út í þetta. Mér finnst um leið og sagt er að við séum að ganga fram gegn grunngildum að einhverju leyti skipta máli að við séum sannfærð um að okkur hefði tekist betur ef við hefðum verið í þeim stól að gera þetta plagg. Það væri innan (Forseti hringir.) þess tímaramma sem okkur hefði verið ætlaður og ég spyr hv. þingmann: Telur hann að hann og Píratar hefðu getað leyst úr því verkefni?