148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[21:15]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er margt hérna. Jú, við lögðum líka til hækkun útgjalda. Eins og fjármálaráðherra bendir á er það ekki eina aðhaldsmerkið hversu miklum afgangi er skilað heldur líka ákveðið jafnvægi í hækkun útgjalda og í hvaða framkvæmdir umframfé er notað.

Ég tel okkur hafa verið tiltölulega nákvæm í pólitíkinni með framlagningu skuggafjárlaganna. Að sjálfsögðu breytast tímar og þróast, það eru vissar forsendur sem við höfðum þá sem ganga ekki eins vel upp núna. Það er ekkert óeðlilegt við það. Þar skiptir aðalmáli aðgengi að upplýsingum sem stjórnvöld, ráðherrarnir, hafa her manna til að afla upplýsinga fyrir sig en við ekki. Þar af leiðandi er ég miklu meira í hlutverki gæðaeftirlits núna í staðinn fyrir að reyna að búa til tillögur af því að ég hef ekki aðstöðu til þess að votta hvort þær tillögur séu raunhæfar.

Skuggafjárlögin okkar eru byggð á því fjárlagafrumvarpi sem kom fram með ákveðnum breytingum og hugmyndum sem höfðu verið uppi í stjórnarmyndunarviðræðum. Við höfðum smábakgrunn að því hvernig þau hefðu getað funkerað en ekki meira en það. Það hefði þurft nánari ígrundun þegar til framkvæmda ætti að koma. Þetta er munur á því sem við höfum á Íslandi og í Svíþjóð þar sem stjórnarandstaðan leggur alla jafna fram sitt fjárlagafrumvarp og hefur aðstöðu heillar skrifstofu til að hjálpa sér við að leggja mat á skuggafjárlög og vinnu við sín eigin (Forseti hringir.) fjárlög. Ég vil ekki segja að þessi fjármálastefna gangi gegn grunngildum, ég er að segja að hún uppfylli þau ekki. Mér finnst munur þar á. Það er munurinn á að hafa reynt að uppfylla þau sem mér finnst skorta. Það er mín gagnrýni.