148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[22:04]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér göngum við til atkvæða um stefnu sem á að gilda óbreytt í fimm ár. Þetta er stefna sem fær falleinkunn hjá nánast öllum hagsmunaaðilum sem hana hafa lesið. Stefnan er sögð vera ógn við stöðugleikann, vera óraunsæ, ábyrgðarlaus, óvarfærin, ómarkviss, óljós, ósjálfbær, óskýr, aðhaldslítil, varasöm og ótrúverðug. Þetta er mat sérfræðinga og hagsmunaaðila.

Þá er í stefnunni að finna vonda hagstjórn, hagstjórn sem gerir ráð fyrir lækkun skatta á sama tíma og útgjöld eru þanin. Enginn heilvita maður sér þetta dæmi ganga upp. Samfylkingin mun því greiða atkvæði gegn þessari gjaldþrota fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar og greiða atkvæði með frávísun hennar.