148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[22:10]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Samfylkingin mun styðja tvo fyrstu liði þessarar breytingartillögu sem koma til atkvæðagreiðslu hér á eftir, en þeir lúta að meiri afgangi hjá hinu opinbera og hraðari niðurgreiðslu skulda en gert er ráð fyrir í núverandi stefnu. Við gerum það með svipuðum rökum og finna má í umsögn fjármálaráðs sem leggur áherslu á að sé ætlunin að treysta og styrkja innviði samfélagsins þurfi að styrkja tekjugrunn ríkisins á sama tíma. Það dugar ekki einungis að líta til gjalda þegar litið er til aðhalds, því að einnig þarf að líta til tekjuhliðarinnar.

Við munum hins vegar ekki styðja 3. lið breytingartillögunnar þar sem hann gerir ráð fyrir að öllum einskiptistekjum verði varið í niðurgreiðslu skulda. Samfylkingin telur að vel komi til greina að hluti af einskiptistekjunum renni í einskiptisfjárfestingar í innviðum samfélagsins.