148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[22:11]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Við Píratar leggjumst einnig á móti því að öllu óreglulegu og einskiptisfjárstreymi verði varið til skuldalækkunar af því að það gætu einfaldlega verið til arðbærari leiðir til þess að verja peningnum, jafnvel innviðauppbygging sem kostnaðar- og ábatagreining myndi sýna að skilaði meiri arði en niðurgreiðsla skulda. Hún er þó auðreiknuð á meðan aðeins erfiðara er að reikna út innviðauppbyggingu, t.d. til einhverra framkvæmda. Við þurfum samt eins og fjármálaráð hefur kallað eftir að fá þær upplýsingar. Við þurfum að fá góðan lista af verkefnum sem eru kostnaðarmetin og ábatagreind til þess að við getum tekið upplýsta umræðu um það og tekið ákvarðanir um forgangsröðun á slíku einskiptisfjármagni. Þess vegna greiðum við atkvæði gegn 3. lið.