148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

störf þingsins.

[10:42]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Mig langar að vekja athygli á þessu Cambridge Analytica máli og hvað það í rauninni þýðir og hvað búið er að gerast.

The Economist fjallaði nýlega um það að með þeim upplýsingum sem fólk setur á netið, ljósmyndum og slíku, er hægt að meta með allt upp í 90% nákvæmni kynhneigð einstaklingsins. Þetta er komið þangað í dag. Menn geta rétt ímyndað sér hvernig hægt er að misnota þetta í þeim ríkjum þar sem t.d. samkynhneigð er ólögleg. Þetta er staðreynd. Þetta er sá veruleiki sem við lifum við í dag. Það er því mikilvægt að við vöknum og förum að veita því athygli hvað Cambridge Analytica hefur verið að gera og hvernig þetta gjörbreytir hinu stjórnmálalega landslagi þegar kemur að því hvernig hægt er að „targetera“ eða miða skilaboðum persónubundið til einstaklinga. Viðskiptamódelið hjá Cambridge Analytica, fyrir utan að reyna að múta fólki og eitthvað svoleiðis sem mögulega er til staðar samkvæmt því sem er í fréttum, er að þeir safna persónuupplýsingum um fólk, fjölda fólks, 50 milljón manns, nota þessar persónuupplýsingar og setja þær í gegnum persónugreinanlegt módel þar sem þeir greina persónuleika manneskjunnar út frá því sem þeir kalla Big Five, eða stóru fimm, það er líka kallað OCEAN, það er skammstöfun á því. Út frá þessu geta þeir síðan „targeterað“ einstakling innan allra hópa sem hefur ekki verið hægt hingað til með sín skilaboð.

Það sem við þurfum að spyrja okkur er: Að hvaða leyti er þessi söfnun á persónugreinanlegum upplýsingum að ganga á friðhelgi einkalífs okkar allra? Að hvaða leyti er það að vinna þessar persónugreinanlegu upplýsingar inn í módel um persónu einstaklingsins, þ.e. gildi hans, stjórnmálaskoðanir og svo framvegis, þegar það er hægt að gera með þessum upplýsingum? Það er það sem er gert með þessar upplýsingar og þær eru notaðar í pólitískum tilgangi. Bara til að vekja okkur til umhugsunar um þetta.

Við Píratar erum byrjaðir að skoða þetta. Þetta er hættan. Fólk fer inn í einhvern leik á Facebook sem segir hvaða persóna í Game of Thrones viðkomandi sé. (Forseti hringir.) Fólk gefur nákvæmlega þessar upplýsingar um sjálft sig og jafnvel þótt það geri það ekki þarf ekki að skoða mörg læk, stundum ekki nema fimm (Forseti hringir.) ef einstaklingur veist hvað hann er að gera, af Facebook-síðu hans til að vita mikið um stjórnmálaskoðanir hans. (Forseti hringir.) Tökum þetta til umhugsunar. Tökum þetta inn í þingið.