148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

störf þingsins.

[10:47]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég ætla í upphafi örstutt að bregðast við orðum hv. þm. Ólafs Ísleifssonar áðan þar sem hann vék að frumvarpi sem hér er á dagskrá í dag, um kosningalög til sveitarstjórna. Bara til áréttingar er rétt að vekja athygli á því að frumvarpið sem hér er til umfjöllunar er þingmannafrumvarp, ekki ríkisstjórnarfrumvarp. Það er flutt af þingmönnum úr fjölmörgum flokkum og stutt af þingmönnum úr fjölmörgum flokkum. Svo eru fjölmargir þingmenn sem hafa efasemdir um það. Línur í því eru ekki eftir stjórn eða stjórnarandstöðu. Innan flokka geta verið skiptar skoðanir um málið, eðlilega. Málið er þess eðlis.

Þess vegna finnst mér ekki sanngjarnt af hv. þingmanni að setja það upp með þeim hætti sem hann gerði hér. Frumvarpið er hins vegar þess eðlis að það er fullrar umræðu virði. Ég geri ráð fyrir að við 3. umr. hér á eftir muni menn fjalla um efnisþætti málsins. Ég mun þess vegna ekki gera það í þessari ræðu.

Hitt atriðið sem ég ætlaði að nefna í þessu stutta innleggi varðar beinlínis störf þingsins og hvernig við nálgumst það í þessum ræðustól og hér í þinginu. Mér fannst það nokkurt umhugsunarefni í gær þegar atkvæðagreiðsla var haldin um þetta tiltekna mál, kosningalagamálið, að fjöldamargir þingmenn sem ekki höfðu tekið þátt í umræðum um málið fundu skyndilega hjá sér mikla þörf fyrir að ræða það undir liðnum um atkvæðagreiðslu, og fóru út í efnislegar umræður um það. Sjálfur er ég ekki saklaus af því, ég gerði það að einhverju leyti. Það er hins vegar umhugsunarefni fyrir okkur hvers vegna við nýtum ekki þann tíma sem gefinn er til umræðu um mál þegar umræðan er á dagskrá og látum nægja þegar kemur að atkvæðagreiðslum að gera örstutt grein fyrir hvernig atkvæði okkar falla. (Forseti hringir.) Að við búum ekki til einhverja aukaumræðu þegar kemur að atkvæðagreiðslunni sjálfri heldur afgreiðum hana þegar hin eiginlega umræða er á dagskrá.