148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

störf þingsins.

[10:53]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á að óska okkur til hamingju með daginn, dag Norðurlandanna. Norðurlandasamstarfið er Íslandi ákaflega mikilvægt og ber að efla það og styrkja og halda því áfram og sýnir glöggt hvað samstarf þjóða er mikilvægt.

Á dagskrá þingsins í dag verða tvö þingmál til lykta leidd, bæði mikilvæg og merkileg. Annars vegar er um að ræða breytingar á kosningalögum sem færa ungmennum, 16 ára, rétt til þess að kjósa til sveitarstjórna. Þetta er stefnumarkandi mál og sýnir framsýni, að við treystum ungu fólki til þess að taka ákvarðanir sem varða þeirra líf. Það er stigið varlega til jarðar með því að byrja á sveitarstjórnarstiginu og kann að vera að við eigum eftir að stíga lengra með því að treysta ungu fólki á fleiri sviðum og samræma ýmislegt sem við kemur aldri og þátttöku í samfélaginu.

Hitt málið er breyting á almennum hegningarlögum þar sem hefur náðst mjög góð samstaða í þinginu um að breyta skilgreiningu á nauðgun og færa samþykki inn í skilgreininguna. Þar með gefur Alþingi frá sér mjög skýr skilaboð frá löggjafanum út í samfélagið. Með samþykkt þessa frumvarps eru Íslendingar að taka forystu á þessu sviði, að minnsta kosti á Norðurlöndunum sem við berum okkur nú helst saman við. Ég trúi því og treysti að við munum afgreiða það mál samhljóða hér frá þinginu og (Forseti hringir.) verðum Íslandi til sóma og stuðlum að kynfrelsi og friðhelgi einkalífsins og þess að kynferðislegar athafnir (Forseti hringir.) skuli ávallt byggjast á samþykki þeirra sem þátt taka.