148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

störf þingsins.

[11:00]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Mig langar í byrjun að beina orðum mínum til hv. þm. Ólafs Ísleifssonar, vinar míns í Flokki fólksins, þegar hann var að ræða hér um Hvalárvirkjun. Hann gerði það í gær og kom inn á það í dag og virkjunarmálin almennt. Mig langar að benda mönnum á að kynna sér söguna í málsmeðferð um slík mál í þinginu. Rammaáætlun er sáttafarvegur sem settur var á dagskrá til þess að leiða svona mál í faglega niðurstöðu og meiri sátt en áður hafði ríkt um slíkar stóra ákvarðanir. Það var gert á vakt Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn á sínum tíma.

Þetta á að vera sáttaferill. Fagleg nálgun þar sem undirhópar vinna að faglegri nálgun á ýmsum sviðum og koma með niðurstöður sínar til verkefnisstjórnar sem tekur síðan þær einkunnir á hverju sviði og metur áhrif á náttúruna, metur áhrif á efnahagslíf o.s.frv.

Það má deila um þetta fyrirkomulag. Ég hef ekki alltaf verið sáttur við það sjálfur. En á meðan við höfum þessar leikreglur sem þingið hefur sett er auðvitað ekkert annað að gera en fara eftir þeim, eins og hæstv. forsætisráðherra kom vel inn á í gær. Málið er ekki á vettvangi þingsins eins og staðan er, öðruvísi en að við tökum þá upp breytingar á þessum lögum. Það er mikilvægt að hafa málefnalega umræðu um þessi mál. Nýting náttúruauðlinda hefur auðvitað breytt öllu fyrir þetta samfélag, skipt sköpum fyrir okkur, en á sama tíma hafa viðhorf okkar í náttúruvernd breyst á undanförnum árum, sem betur fer. Við höfum náð miklum árangri í þeim efnum. Við getum rifjað upp söguna um það þegar einhvern tímann stóð til að virkja Gullfoss. Það dettur engum í hug í dag.

Annað mál, virðulegur forseti, sem mig langar að minnast á og ég sé að er ekki á dagskrá þingsins í dag en ég hafði orð á í gær, er um fjölda fulltrúa í sveitarstjórn sem umhverfis- og samgöngunefnd afgreiddi hér út í gær. Ég legg mikla áherslu á að því verði komið á dagskrá þingsins í dag, fyrir helgi. Ég tel ákveðið samræmi í því að hraða málsmeðferð á því máli í samræmi við þann hraða sem er á málinu um kosningaaldur. Það eru ákveðin líkindi með þessum málum þó að vissulega sé munur á þeim. En það er bara mikilvægt að þetta mál verði tekið til umræðu á vettvangi þingsins og afgreitt áfram með sama hætti og við höfum orðið vitni að í hinu málinu.