148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

störf þingsins.

[11:05]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég verð að segja að það kom mér aðeins á óvart í atkvæðagreiðslu um fjármálastefnu í gær að okkar góðu félagar í Samfylkingunni ákváðu að styðja breytingartillögu Viðreisnar sem er — ja, eigum við að segja svolítið meira til hægri en sú sem þó var hér lögð fram.

Ég hefði talið að það væri líklegra að félagar okkar myndu styðja stefnu sem stendur nær þeim þó að hún gangi kannski ekki eins langt og þau myndu vilja. Á síðasta ári greiddu þessir sömu þingmenn, ekki alveg sömu en einhverjir þingmenn, atkvæði gegn þeirri stefnu sem hér var svo samþykkt af þeirra hálfu í gær. Þar var kallað eftir minni ríkisútgjöldum og meiri niðurgreiðslu skulda. Það er alveg skiljanlegt út frá sjónarhorni og pólitík Viðreisnar en það er ekki jafn skiljanlegt út frá sjónarhorni og viðhorfi og pólitík Samfylkingarinnar sem hefur hamast á okkur með nákvæmlega sömu orðum og þau gerðu þá við þá stefnu sem lögð var fram. (Gripið fram í.)

Nákvæmlega sama tölulega stefna var sett fram í gær af hálfu Viðreisnar og sett var fram af hálfu þáverandi hæstv. fjármálaráðherra Benedikts Jóhannessonar. Ég veit að formaður Samfylkingarinnar gagnrýndi þáverandi fjármálaráðherra töluvert þá og nefndi í því sambandi söguna um Dr. Jekyll og Mr. Hyde þar sem hann taldi að hann væri að snúa af þeirri braut sem hann hefði boðað, og talaði líka um að hægt væri að flytja fjöll fyrir 20 milljarða. Við höfum lagt talsvert betur í en þá var gert og erum að fara að gera enn þá betur. Þannig að ég átta mig ekki alveg á því hvernig þau hugsa, en það svo sem ekki mitt að gera það.