148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[11:54]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ágætt að heyra hv. þm. Birgi Ármannsson nýta 3. umr. til að koma á framfæri sömu athugasemdum og hann hefur gert við málið frá upphafi. Það er ágætt að eiga orðastað við hann um það. En ég kveð mér til hljóðs vegna þess að hv. þingmaður lætur að því liggja, og er ekki einn um það úr sínum flokki, að hér sé eitthvað gáleysislegt á ferð. Í gær komu nokkrir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins og töluðu um að kastað væri til höndum eða að málið væri ekki fullbúið.

Þess vegna langar mig að koma hér upp og mér liggur við að segja bera af mér sakir. Það eru fá mál sem ég hef fylgst með, bæði á þingferli mínum og þegar ég var fréttamaður að skrifa um þingið, þar sem jafn vel hefur verið vandað til verka og jafn mikið rætt um og þetta mál. Þetta mál var lagt fram 16. desember. Það eru fjórir mánuðir síðan það var. Það er búið að vera til umfjöllunar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Sendar voru 323 umsagnarbeiðnir. 23 umsagnir bárust. Tölur gesta hef ég bara ekki í kollinum. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem mál af þessu tagi er lagt fram. Það var lagt fram á 146. löggjafarþingi. Það var sent til umsagnar. 21 umsögn barst. Þetta mál var lagt fram á 147. löggjafarþingi. Það var ekki útrætt. Áður hafa fjölmörg mál af þessum toga verið lögð fram, ekki nákvæmlega þetta, á mörgum þingum þar á undan.

Þannig að ég bið hv. þingmenn, þó að þeir séu ósammála efnisinntaki málsins, að þeir falli ekki í þá gryfju að gera málatilbúnaðinn tortryggilegan eða kasta rýrð á hann. Þar er ekki undir efnisleg afstaða til málsins (Forseti hringir.) heldur virðing Alþingis.