148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

afnám innflæðishafta og vaxtastig.

[12:14]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Stóra spurningin er hvort einhvern tímann verði mögulegt að reka peningastefnu hér á landi án allra hafta á meðan við höldum íslensku krónunni, minnsta sjálfstæða gjaldmiðli í heimi.

Komið hefur fram í umræðunni að færa megi rök fyrir því að innflæðishöft leiði til þess að fjármagnskostnaður verði hærri, að innflæðishöftin ýti undir það að vextir hér á landi verði hærri en þeir væru ef við byggjum ekki við höftin og hafi þess vegna neikvæð áhrif á þjóðarframleiðsluna.

Einnig er því haldið fram í umræðu um innflæðishöftin að þau gefi bönkunum yfirburðasamkeppnisstöðu. Innflæðishöftin skekki fjárfestingar og lífeyrissjóðir og bankar hafi hagsmuni af því að halda þeim. Ísland sé lítið land og við þurfum á erlendu fjármagni að halda.

Á móti kemur að með innflæðishöftunum hefur Seðlabankinn betri tækifæri til að stýra peningamálunum og með þeim er erfiðara að skapa usla á gjaldeyrismarkaði, okkur í óhag. Innflæðishöftin virka hamlandi á að mögulegt sé að taka stöðu gegn krónunni með alvarlegum afleiðingum fyrir almenning.

Þótt styrking krónunnar hafi góð áhrif á kjör almennings getur það verið skammgóður vermir. Og ef krónan styrkist enn frekar mun það hafa afleiðingar fyrir útflutningsgreinarnar, ekki síst ferðaþjónustuna, þá einnig á kjör almennings til hins verra.

Herra forseti. Íslenska krónan er okkur mjög kostnaðarsöm og erfitt er að sjá hvernig við getum haldið henni án hafta. Innflæðishöftin eru okkur líka dýr. En meta þarf ískalt hvort það að taka þau alfarið af eða í skrefum verði okkur kostnaðarsamara og hvenær rétti tíminn sé til að gera slíkt.