148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

afnám innflæðishafta og vaxtastig.

[12:16]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir að vekja máls á þessu og þakka honum fyrir framsögu hans í málinu sem og hæstv. ráðherra. Mál þetta hefur verið nokkuð til umræðu í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, eins og þingmanninum er kunnugt um, og hefur nefndin fengið útskýringar á hvernig þetta mál allt saman stendur.

Ég tek undir áhyggjur Seðlabanka Íslands sem komið hafa fram um að sú leið að láta bindinguna alveg lausa í einu vetfangi geti verið varhugaverð og geti ýtt undir áhættuna af vaxtamunarviðskiptum, svipað og var hér fyrir hrun með skelfilegum afleiðingum. Íslenska hagkerfið hefur áður brennt sig illa á því.

Að mínu viti má hins vegar alveg ræða hvort gera ætti greinarmun á hefðbundnum verðbréfaviðskiptum eða viðskiptum í verðbréfasjóði eða innflæði í verðbréfasjóði eða beinni fjárfestingu í atvinnulífi, eins og hv. þm. Óli Björn Kárason kom raunar inn á, ég held það hafi örugglega verið í þessari ræðu frekar en í samtali áður. Það gæti verið farsælt. Ég verð að segja að ég treysti að þessu leyti Seðlabankanum ágætlega í samvinnu við stjórnvöld til þess að meta það á hvaða tímapunkti heppilegt sé að taka þessi skref. Ég geri ráð fyrir að hv. efnahags- og viðskiptanefnd muni fylgjast gaumgæfilega með því.