148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

afnám innflæðishafta og vaxtastig.

[12:20]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mér er jafn illa við fjármagnshöft og flestum öðrum, hvort sem það eru innflæðishöft eða aðrar tegundir af fjármagnshöftum. Þau eru kostnaðarsöm, það er engin spurning, og tiltölulega vel þekkt hver birtingarmynd þess kostnaðar er. Hér hefur verið talað um að þau hækki vaxtastigið á Íslandi.

Stundum er talað um hinn ómögulega þríhyrning: Frjálst flæði fjármagns og stöðugan gjaldmiðill eða sjálfstæða peningastefnu. Það er hægt að velja tvennt, ekki allt þrennt. En þegar við ræðum hluti eins og innflæðishöft verðum við að mínu mati að ræða hina tvo þættina á sama tíma. Því að akkúrat núna er gengi krónunnar hátt. Það virðist samhugur um það. Í það minnsta ekki lágt. Við erum búin að draga þó nokkuð mikið úr fjármagnshöftum. Það er í eðli sínu jákvætt.

En ef við ætlum að vera með sjálfstæða peningastefnu, sjálfstæðan gjaldmiðil, og ætlum ekki að vera með höft þýðir það að við verðum með óstöðugan gjaldmiðil. Kostnaðurinn birtist þá þannig. Við munum alltaf borga fyrir það á einhvern hátt. Með innflæðishöftum borgum við fyrir það með háu vaxtastigi. Ef við ætlum að hafa krónuna áfram munum við borga fyrir það. Það er þannig. Meira að segja líka þótt við tökum upp aðra mynt. Birtingarmynd kostnaðarins verður bara öðruvísi. Hún birtist þá ekki í vöxtum.

Að mínu mati verðum við að ræða þetta þrennt saman: Frjálst flæði fjármagns, stöðugan gjaldmiðil og sjálfstæða peningastefnu. Það liggur alveg í augum uppi að núverandi stjórnvöld ætla að halda sjálfstæðri peningastefnu og halda í íslensku krónuna. Það liggur alveg ljóst fyrir að íslensk yfirvöld ætla að hafa frjálst flæði fjármagns. Eðlilega, það er hið eðlilega ástand í öllum hagkerfum að hafa frjálst flæði fjármagns. En það þýðir að við erum með óstöðugan gjaldmiðil. Ég velti fyrir mér hvað hinn almenni borgari geti gert í því. Og það þýðir að samband íslenskra hagkerfisins við gjaldmiðil sinn verður alltaf mjög vont. Ég fer nánar út í það í seinni umferð.