148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

afnám innflæðishafta og vaxtastig.

[12:23]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þingmanni og formanni efnahags- og viðskiptanefndar, Óla Birni Kárasyni, þessa umræðu um afnám innflæðishafta og vaxtastig. Eins og komið hefur fram eru höftin sett upprunalega til að draga úr fjármagni sem leitar hingað erlendis frá í þeim tilgangi að ávaxta sig á hærri vöxtum og setning laganna sett m.a. af biturri reynslu af útgáfu svokallaðra jöklabréfa sem þess utan veðja á gjaldmiðilinn.

Markmiðið var og með lagasetningu og þessum fjárstreymistækjum fyrst og fremst þó til að draga úr áhættu tengdri óhóflegu mögulegu fjármagnsinnflæði í tengslum við losun fjármagnshafta og það kemur skýrt fram í nefndaráliti hv. efnahags- og viðskiptanefndar þegar frumvarp er var hér til umfjöllunar í þinginu þar sem segir, með leyfi forseta:

„Frumvarpinu er ætlað að veita Seðlabanka Íslands stjórntæki til að draga úr áhættu tengdri óhóflegu fjármagnsflæði til landsins í tengslum við losun fjármagnshafta.“

Það er að einhverju marki rétt að frá setningunni í júní 2016 kann hættan sem fylgir þessum viðskiptum með lægra vaxtastigi að hafa minnkað og því rétt að hugleiða og ræða það hvort rökin haldi nú, þegar vextir t.d. í Bandaríkjunum og Evrópu hafa hækkað og Seðlabankinn hefur á þessum tíma jafnframt lækkað vexti, ræða hvort rök haldi. Það verður þó alltaf að líta á vaxtastigið og það kemur vel fram í umfjöllun Seðlabankans hverju sinni og mögulega þá að meta stöðuna hverju sinni og draga þá að einhverju leyti úr bindiskylduhlutfallinu eða bindihlutfallinu.