148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

afnám innflæðishafta og vaxtastig.

[12:30]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Þetta er auðvitað býsna tæknileg umræða. Mér dettur í hug orðtakið að hafa vaðið fyrir neðan sig, sem þýðir að fara varlega og gera varúðarráðstafanir. Það er skynsamlegt. Þessi umræða er af þeim toga.

Hins vegar er til málsháttur sem segir: Betri er krókur en kelda, sem þýðir að fara ekki endilega augljósu leiðina, taka á sig krók og girða fyrir að maður komist í vandræði. Það er nefnilega ótrúlegur ósiður, svolítið íslenskur, að ráðast alltaf gegn sjúkdómseinkenninu í stað þess að ráðast á sjúkdóminn sjálfan, svo ég tali nú ekki um að reyna að fyrirbyggja að maður fái hann. Nú hefur ríkisstjórnin verið alveg skýr með að ekki standi til að skoða kosti þess að taka upp stærri og stöðugri gjaldmiðil. En það skyldi þó ekki vera að þessi 96 ára gamli öldungur sem krónan er, sé sjálfur sjúkdómurinn? Uppstökkt gamalmenni sem er ýmist ofsa kátt eða geðillt þannig að ættingjarnir eiga bara í mesta basli við að umgangast hann?

Þannig leika sveiflur krónunnar mörg fyrirtæki mjög grátt, ekki síst nýsköpunarfyrirtæki og fyrirtæki sem byggja á mikilli þekkingu og þurfa að leika stórt hlutverk í samfélagi okkar í framtíðinni. Á hinni löngu ævi er samt stóra tilhneigingin veiking, enda hefur krónan skroppið saman um 99% á ævi sinni. Munum að gengisfelling krónunnar hefur iðulega verið leið til að færa fé frá almenningi til sumra fyrirtækja sem hefur svo skilað sér í hærri verðbólgu og lakari kjörum fyrir launafólk. Er það virkilega svo að það sé réttlætanlegt að íslenskur almenningur og þorri íslenskra fyrirtækja þurfi að búa við krónuna og fylgifiska hennar sem eru háir vextir og verðtrygging?