148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

afnám innflæðishafta og vaxtastig.

[12:32]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Vextir á Íslandi eru hærri en í nágrannalöndunum af margvíslegum orsökum. Það er í raun fleira en innflæðishöftin sem þar kemur til þó að þau hafi vissulega áhrif. Við erum með örsmátt hagkerfi eins og komið hefur fram í umræðunni. Við erum með jafnvel enn þá smærri gjaldmiðil. En það hefur líka verið mikil spenna í hagkerfinu og Seðlabankinn því beitt vaxtastiginu til að reyna að slá á þá spennu, eins og kemur fram í gögnum frá bankanum.

Ég held að það sé í sjálfu sér ekki mikill ágreiningur um það í þessum sal, meðal þingmanna eða bara þjóðarinnar yfirleitt að auðvitað hefðum við viljað að afnám hafta í kjölfar bankahrunsins hefði gengið hraðar fyrir sig en það gerði. En svo ég komi inn á sjúkdómseinkenni, eins og hv. þm. Logi Einarsson áðan: Suma sjúkdóma og sum mein er ekkert hægt að lækna rosalega hratt. Það bara tekur tíma. Íslenska hagkerfið verður að hafa þá þolinmæði sem þarf og íslenskt samfélag hefur þurft að hafa þá þolinmæði sem þarf til að taka á þessu.

Ég held að við séum öll sammála um að íslenska hagkerfið hafi þrátt fyrir allt, í kjölfar efnahagshrunsins, náð sér ótrúlega vel á strik. Það er ekki allt stjórnvöldum að þakka. Höldum því til haga. En margt af því sem hefur heppnast vel hefur einmitt komið til vegna þess að stjórnvöld, í samvinnu við þær stofnanir sem við reiðum okkur á, hafa borið gæfu til að stíga skrefin varlega og taka þau eitt og eitt þannig að hagkerfið hafi náð flugi á ný.