148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

afnám innflæðishafta og vaxtastig.

[12:36]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Á meðan við verðum með sjálfstæða mynt og sjálfstæða peningastefnu og ekki með fjármagnshöft þá þýðir ekkert að tala um einhvern stöðugleika í því sambandi, það þýðir ekkert, hann verður ekki. Það er ekki pólitísk skoðun, það bara er þannig og ég held að allir viti að það sé þannig. Fólk er bara misduglegt annars vegar við að horfast í augu við það og hins vegar við að vita hvað eigi að gera í því.

Nú langar mig að sýna smá vott af lausnamiðaðri nálgun á þetta, að því gefnu að við verðum áfram með sjálfstæða peningastefnu og við verðum einhvern tímann án hafta sem ég geri ráð fyrir að liggi fyrir í framtíðinni. Það er að almenningur sjálfur öðlist miklu betri skilning á fjármálum og sér í lagi peningamálum en almennt gerist, bara almennt í heiminum. Fólk er ekki almennt mikið að velta fyrir sér gjaldeyriskaupum og því um líku í sínu daglega lífi. Það veltir fyrir sér húsnæðislánum og bílalánum, yfirdrætti og slíku. Ef við ætlum að halda í þessa krónu þá þýðir það að samband almennings við gjaldmiðilinn þarf að verða svolítið skrýtið, svolítið brenglað. Mig langar að minna á eitt sem gleymist líka og var byrjað að gerast fyrir hrun sem er að fyrirtæki voru í auknum mæli farin að nota aðrar myntir. Það kom svona bakdyramegin inn í raun og veru, ákveðin evruvæðing eða gjaldeyrisvæðing í hagkerfinu meðal þeirra sem kunnu að díla við þennan óstöðugleika, þennan innbyggða óstöðugleika í notkun svo smárrar myntar.

Ef almenningur allur hefur þessa sömu þekkingu, þennan sama áhuga á peningamálum og kann að verja sig í fjármálaáföllum eins og 2008 þá þýðir það auðvitað að við erum komin með í raun og veru tvöfalt peningakerfi sem er annars vegar íslenska krónan og hins vegar hvað annað sem fólk notar til þess að verja eigur sínar í hruni. Ein leið til þess að verja þetta er verðtrygging, með því að spara á verðtryggðum reikningi en þá erum við komin út í slíkt, fyrirgefðu virðulegi forseti, ég kann ekki betra orð, það er ákveðið skítamix (Forseti hringir.) sem við verðum föst með svo lengi sem við verðum með sjálfstæða krónu. Það er engin leið út úr þessu, við verðum með óstöðugleika (Forseti hringir.) svo lengi sem við erum með íslenska krónu án hafta.