148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

afnám innflæðishafta og vaxtastig.

[12:39]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ítreka þakkir til hv. málshefjanda og jafnframt það sem kom fram í máli hæstv. ráðherra. Það er jákvætt að ég greini samhljóm á milli þess sem fram kemur í máli Seðlabankans, sem heldur á peningastefnunni, og stjórnvalda og máli hæstv. ráðherra. Staðan núna er þessi: Bankinn hefur sagt að ekki sé tímabært að afnema höftin. Til þess þurfi vaxtamunur að vera minni. Til að svo megi verða þurfa vextir augljóslega annað tveggja að lækka hér eða hækka erlendis. Höftin hafa haft tilætluð áhrif. Stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var, ef ég man rétt, andvíg þessum höftum á sínum tíma þegar hv. efnahags- og viðskiptanefnd fjallaði um málið við innsetninguna — þá tekur stjórn sjóðsins undir þau sjónarmið íslenskra stjórnvalda að bindiskyldan sé nauðsynleg við núverandi aðstæður.

Vissulega hefur þessu verið beint í vaxtafarveginn enda umbúnaður peningastefnunnar með þeim hætti að það er nauðsynlegt til að viðhalda verðstöðugleika.

Þessi heimild sem Seðlabankanum var veitt með þessari bindiskyldu: Það er eitt að hafa hana, annað er að beita henni. Ég tek undir með hv. þingmanni og formanni efnahags- og viðskiptanefndar Óla Birni Kárasyni varðandi það. Það er svo sem alveg í samræmi við það að Seðlabankinn telur nauðsynlegt að hafa (Forseti hringir.) þetta tæki í vopnabúrinu til að geta stutt við peningastefnu og þjóðhagsvarúð þegar svo ber undir.