148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

afnám innflæðishafta og vaxtastig.

[12:41]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Ég vil taka upp þráðinn í ræðu ráðherra þegar hann reifaði þau sjónarmið að læra þyrfti af reynslunni varðandi þau vaxtamunarviðskipti sem hér voru ástunduð á sínum tíma. Sömuleiðis ummæli hans um að þegar höftin voru almennt talað afnumin var vissulega óvissa um hvernig hlutunum myndi reiða af. Það tókst hins vegar vel.

Ég hef fullan skilning á þeim varúðarsjónarmiðum sem ráðherra hefur reifað hér. Það er hins vegar þannig að þessi höft kosta mikið. Þau leggja mjög þungar fjárhagslegar byrðar á ríkissjóð umfram það sem unnt væri að komast af með. Í annan stað skapa þau einhvers konar gerviveröld. Aðrar þjóðir ástunda ekki haftabúskap af þessu tagi. Þetta fyrirkomulag getur þannig ekki staðið hér til langframa.

Hins vegar heyri ég á ráðherra að hann hefur uppi orð um að taka framkvæmd þessara úrræða til endurskoðunar. Ég vil, eins og fleiri hér, hvetja hann til dáða í þeim efnum. Sérstaklega vil ég beina því til ráðherra að hann láti Seðlabankann hafa hitann í haldinu og gangi fast á eftir skýringum af hálfu bankans á því af hverju hann vilji viðhalda höftum, sér í lagi þegar kemur að því að gera ekki greinarmun á vaxtamunarviðskiptum og því sem við myndum kalla eðlilegri, heilbrigðri langtímafjárfestingu í landinu.