148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

afnám innflæðishafta og vaxtastig.

[12:49]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég rakti hér í fyrri ræðu minni aðdragandann að setningu þessara úrræða, þessara þjóðhagsvarúðartækja, sem eru að verða almennt viðurkennt úrræði stjórnvalda í hverju landi til þess að stýra efnahagsmálum. Þar kom ég meðal annars inn á það að vextir hafa hækkað í Bandaríkjunum síðan. Þeir hafa hækkað fimm sinnum, en lækkað fimm sinnum á Íslandi. Þannig að aðstæður hafa breyst mikið sem gefur mér væntingar um að þörfin fyrir beitingu úrræðisins sé ekki sú sem hún var.

Hér hafa síðan margir komið inn á peningastefnu og sjálfstæðan gjaldmiðil. Ég verð bara að segja að mér finnst þeir, sem saka þá sem tala fyrir sjálfstæðri peningastefnu á grundvelli íslensku krónunnar um að tala ekki jafnframt um galla þess að halda úti sjálfstæðri peningastefnu, þeir eru í mínum huga sekir um að tala aldrei um kosti þess. Kostirnir eru svo augljósir, t.d. það grundvallaratriði að gengi gjaldmiðilsins hverju sinni endurspegli stöðu atvinnuveganna. Þetta er grundvallaratriði í allri peningamálastjórnun. Í því sambandi getur orðið mjög kostnaðarsamt og efnahagslega mikið hættuspil ef menn ætla að tengja sig mynt þegar vextir þeirrar myntar eru í engu samhengi við það sem er að gerast í atvinnulífi hér og í hagkerfinu almennt.

Um þetta hefur mikið verið fjallað. Það er augljóst að Evrópski seðlabankinn myndi aldrei fara að líta til stöðunnar á Íslandi þegar hann væri að taka sínar ákvarðanir um vexti á evrusvæðinu. Það er alveg útilokað að það muni nokkurn tímann gerast.

Þess vegna hef ég sagt að það sem við ættum að einbeita okkur að sé að laga þá þætti sem hafa verið að grafa undan sjálfstæðri peningamálastjórn, allt sem snýr að vinnumarkaðnum, opinberum fjármálum. Við erum að leggja mikla vinnu á okkur í dag, og höfum gert á undanförnum (Forseti hringir.) árum, til þess að styrkja umgjörðina. Það mun gagnast okkur við að halda úti sjálfstæðri mynt með sjálfstæðri peningamálastjórn. (Forseti hringir.)

Svo verð ég að ljúka ræðunni á því að minna á að nú í vor fáum við skýrslu vegna endurskoðunar peningastefnunnar sem vonandi verður grundvöllur fyrir líflega umræðu hér í þinginu.