148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[15:02]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég er svolítið að reyna að skilja þetta frumvarp og hver sé tilgangurinn með því. Ég heyri hér stundum í helstu stuðningsmönnum frumvarpsins að þeir vilji auka ábyrgð og treysta betur ungu fólki til að taka ákvarðanir sem geti skipt það máli. En það sem er kannski merkilegast er að þetta er samt sama fólkið að uppistöðu til og er ekki til í að treysta ungu fólki til eins eða neins, ekki einu sinni til að kaupa allar vörurnar sem til eru í kjörbúðinni.

Það eru einhverjar mótsagnir í þessu. Ég hef oft sagt sjálfur að ég sé mjög tilbúinn að treysta ungu fólki meira en gert er. Ég var sjálfur alla tíð á móti því að hækka sjálfræðisaldurinn úr 16 árum í 18 ár en ef ég man rétt var það nú helsta áherslan hjá þeim flokkum sem styðja þetta frumvarp að vilja hækka sjálfræðisaldurinn. Þetta er mótsagnakennt og maður hefur grun um að eitthvað annað liggi að baki en að allt í einu sé orðið svo mikið traust til ungs fólks.

Ég hefði viljað skoða þetta mál í miklu stærra samhengi. Ég hefði viljað fara almennt í það hvenær við eigum að treysta fólki til að taka ákvarðanir um líf sitt, hvort sem það varðar fjármál eða eigin málefni. Er ástæða til að lækka þann aldur til að mynda úr 18 árum í 16 ár? Það er alveg til skoðunar. En við höfum ákveðið að allir séu börn til 18 ára aldurs, eru þá ekki sjálfráða og ekki fjárráða af því að menn hafa ekki nægan þroska til að taka ákvarðanir um eigið líf fyrr en á þeim aldri? Það er niðurstaða þingsins. Svo kemur allt í einu fram frumvarp þar sem við ætlum að treysta þessu sama fólki, sem við treystum ekki til neins annars, til að kjósa til sveitarstjórna. Ég held að við viðurkennum öll að slíkum kosningarrétti fylgir mikil ábyrgð. Núna ætlum við bara að leggja þessa ábyrgð á ungmennin en þau eiga helst ekki að bera ábyrgð á neinu öðru, eða mjög fáu.

Það er ekki bara það sem skiptir máli. Það skiptir líka máli þegar við erum að breyta kosningalöggjöf að sæmileg sátt sé um það, að það sé ekki gert í flýti og í miklum ágreiningi. Komið hafa fram breytingartilllögur um að fresta því um sinn eða fresta gildistökunni, en því var hafnað. Þetta skal einhvern veginn keyrt hér í gegn og það þrátt fyrir mikil andmæli Sambands íslenskra sveitarfélaga sem sér um framkvæmdina og telur að of skammur tími sé núna fyrir kosningarnar til þess og að ýmislegt geti komið upp. Það er svo sem alveg í samræmi við tilmæli frá Evrópuráðinu, að ekki skuli farið í miklar breytingar á styttri tíma en ári fyrir fyrirhugaðar kosningar.

Hér er auðvitað um miklar breytingar að ræða. Þetta snýst ekki bara um að fjölga nokkrum á kjörskrá. Þetta er grundvallarbreyting. Það koma auðvitað upp praktísk vandamál í kringum svona lagað og það á að keyra þetta núna í gegnum þingið þrátt fyrir að sérfræðingar í dómsmálaráðuneytinu vari mjög við því. Það er ekki langt síðan menn voru hér gargandi í þingsal yfir því að við tækjum ekki nógu mikið mark á sérfræðingum í ráðuneytunum, það er bara örstutt síðan, en núna skipta sérfræðingarnir í ráðuneytunum engu máli. Þetta skal bara keyrt í gegn í miklum ágreiningi þvert á ráð sérfræðinga, þvert á tilmæli frá Evrópuráðinu, bara af því að við höldum einhver okkar að við séum að fara að græða á því að 16 og 17 ára krakkar muni kjósa okkur í næstu sveitarstjórnarkosningum. Það er ekkert annað baki þessu, það eru engin önnur skynsemisrök að baki þessu frumvarpi.

Ég get ómögulega skilið að það sé einhver munur á kosningum í sveitarstjórnir eða á Alþingi hvað þetta varðar. Ábyrgðin er alveg jafn mikil hjá kjósendum, hvort sem um er að ræða sveitarstjórnir eða Alþingi. Og ekki breytum við þessum aldri til Alþingis nema að breyta stjórnarskránni þannig að menn hafa talið það mikilvægt að lögræði og kosningarréttur fari saman. Auðvitað er það mikilvægt.

Við getum líka séð ýmis praktísk vandamál, við það að ólögráða einstaklingur hafi kosningarrétt. Við erum svolítið að vandræðast með það hvað felst í því að vera forsjáraðili barns, hversu mikið hægt sé að takmarka rétt barnsins sem það hefur að öðru leyti. Við getum séð það raunhæfa vandamál að ef 16 eða 17 ára unglingur þarf að kæra sig inn á kjörskrá, getur hann kært sig sjálfur inn á kjörskrá? Nei, hann er ekki lögráða. Og ef foreldrið segir bara: Nei, ég kæri þig ekkert inn á kjörskrá, mig grunar að þú ætlir að kjósa einhverja tóma vitleysu. Það eru vandamálin sem við stöndum frammi fyrir þegar við erum í þessum flýti, hv. þm. Andrés Ingi Jónsson. Það eru ýmis praktísk vandamál. — Nei, við erum ekki tilbúin að skoða það. Við skulum keyra þetta í gegn, einn, tveir og þrír.

Þetta frumvarp er vanhugsað, það er ágreiningur um það og ég held að það væri skynsamlegt að draga það til baka og koma með það aftur síðar, þá í tengslum við almenna umræðu um réttindi ungmenna. Hvað þau eigi að vera mikil. Sjálfur er ég mjög hlynntur því að færa niður aldurinn í 16 ár, að fólk fyrr taki ábyrgð á sjálfu sér almennt. Ég er bara mjög hrifinn af því, alla vega vil ég skoða það mjög vel og tel að það geti vel verið að það sé skynsamlegt. Ég treysti ungu fólki mjög vel. Miklu meira en bara að kjósa til sveitarstjórna. Ég vil gjarnan að það sé miklu meiri þátttakendur í samfélaginu og eigi að hafa miklu meiri áhrif. Ungmenni eru auðvitað orðin nokkuð sjálfstæð 16 ára, skólaskyldunni er lokið … (Gripið fram í: Varstu ekki farinn að búa þá?) — Nei, ég var nú ekki einu sinni byrjaður að kíkja á konur þá.

Það er nú bara þannig að það er alveg hægt að treysta ungu fólki og ég treysti því mjög vel, en ég vil ekki rasa um ráð fram. Ég tel að það geti ekki farið saman að vera ólögráða og hafa þennan rétt, þannig að ég tel miklu nær að við skoðum það einfaldlega að lækka lögræðisaldurinn, að færa almennt aukna ábyrgð á ungmenni. Það kann auðvitað að vera flókið. Það kann að þýða að við þurfum að undirbúa það vel. En það er umræðan sem ég vil gjarnan taka og ég lít almennt svo á að réttindi, skyldur og ábyrgð eigi að fara saman, en ekki tína eitt og eitt atriði fram af því að menn telja að það geti hentað þeim tímabundið. Það finnast mér ekki góð vinnubrögð og mér finnast það ekki góð vinnubrögð að afgreiða svona mál í ósátt.

Ég veit að þetta er þverpólitískt mál. Þetta er ekki flokksbundið mál, þetta er ekki ríkisstjórnarmál en það breytir því ekki, Alþingi á ekki að vinna með þessum hætti, á ekki að afgreiða svona í ágreiningi. Það á að skoða það í miklu víðara samhengi, fara að ráðum sérfræðinga í ráðuneytinu, hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, eins og þingmaðurinn hefur oft talað um, það er sérstaklega áríðandi í þessu máli, og fara betur yfir það. Okkur liggur ekkert á og ég vonast til að menn íhugi afstöðu sína, endurskoði afstöðu sína. (Gripið fram í.) — Ja, það er nú ekki hægt að stóla á það hjá öllum hér. Það er mikilvægt að fara betur yfir málið, skoða það betur og ná miklu meiri sátt.