148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[15:14]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég er farinn að skilja betur af hverju hlutirnir gerast hægt hjá Sjálfstæðisflokknum þegar það er erfitt að breyta svona smávægilegu atriði, að færa kosningaaldur niður um tvö ár með fimm, sex vikna fyrirvara. Þetta er engin grundvallarbreyting. Það er mjög mikilvægt að hafa í huga þegar við ræðum þetta að þegar Evrópuráðið varar við breytingum á kosningalöggjöf er verið að tala um grundvallarbreytingar. Að stækka kjörskrána um 3% getur aldrei talist grundvallarbreyting á kosningalöggjöf. Ég myndi frekar kalla það einhvers konar afstillingu.

Mér mislíkar reyndar að ýjað sé að því í máli hv. þingmanns að hér liggi einhverjar annarlegar hvatir að baki. Ég held að við séum öll sammála um að við treystum 16–17 ára unglingum til að kjósa. Ég heyri ekki annað en að hv. þingmaður sé mér sammála um það. (Gripið fram í: … kjörgengi?) Ég get fyllilega tekið undir að við getum þá tekið þau mál síðar, varðandi sjálfræðisaldur og fjárræði, og rætt þau í framhaldinu. Mér verður hugsað til afstöðu Sjálfstæðisflokksins þegar kemur að endurskoðun stjórnarskrár, að mikilvægt sé að taka svona endurskoðun í áföngum og brjóta niður í ákveðna hluta. Er þá ekki bara ágætt að segja: Ef við treystum 16 ára unglingum til að kjósa, leyfum þeim það og skoðum síðan í framhaldinu hvort endurskoða eigi sjálfræði, fjárræði og kjörgengi og láta það fylgjast að. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu.

Varðandi sérfræðinga dómsmálaráðuneytisins skilst mér að þeir hafi nú ekki haft mjög miklar áhyggjur af þessu þegar þeir komu fyrir nefndina fyrir fimm vikum síðan en allt í einu hafa þeir stórkostlegar áhyggjur nú fáeinum vikum síðar.

Ég spyr hv. þingmann: Er ekki ágætt bara að byrja á þessu og taka svo höndum saman um að klára endurskoðun á því sem ég held að ég og hv. þingmaður séum sammála um, að endurskoða hina þættina líka?