148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[15:19]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að við verðum þá bara að vera ósammála um það, hv. þingmaður og ég, að þetta sé einhver grundvallarbreyting. Mér þykir það ekki vera mjög mikil breyting að víkka kosningaaldurinn með þessum hætti.

Ég hef svolítið gaman af því hvað þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru miklir kerfiskarlar. Það virðast nefnilega vera helstu áhyggjur þeirra að erfitt sé fyrir kerfið að bregðast við þessu með tilhlýðilegum fyrirvara. Ég hélt að þetta væru einmitt boðberar frelsisins og að kerfið ætti ekki að vera ráðandi í öllu saman. En nú er allt í einu helsta áhyggjuefnið orðið að sveitarfélög hafi ekki nægan tíma til að undirbúa sveitarstjórnarkosningar af því að það fjölgaði um 3% á kjörskrá. Það þykja mér merkileg rök. Ég hef ekki sömu áhyggjur af því. Ég held að það sé tiltölulega lítið vandamál að uppfæra kjörskrána í rafrænum heimi í dag. (Gripið fram í: Er það?) En mér þætti þá áhugavert að heyra nánari útlistun hv. þingmanns á því hvað það er sem er svona rosalega flókið við að fjölga um 3% á kjörskrá tæknilega séð.