148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[15:20]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að lesa upp fyrir hv. þingmann samþykkt stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga sem send var til okkar á þinginu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga tekur ekki efnislega afstöðu til þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu en telur varhugavert að samþykkja breytingar á lögum um kosningar til sveitarstjórna nú þegar rúmlega tveir mánuðir eru til kosninga. Stjórnin bendir á leiðbeiningar frá Evrópuráðinu þar sem fram kemur að stöðugleiki er mikilvægur varðandi kosningalöggjöf og telur að stjórnvöld og Alþingi eigi að starfa út frá þeirri meginreglu að ekki séu gerðar meiri háttar breytingar á kosningalögum þegar minna en eitt ár er til kosninga.“

Þetta eru þeir sem eiga að framkvæma kosningarnar, hv. þingmaður. Það er heldur ekkert gamanmál. Það á ekki vera eitthvað kæruleysislega hugsi yfir því ef eitthvað klikkar við framkvæmd kosninga. Það er stórmál ef kosningar klikka, eins og dæmin sanna. Það er stórmál og þegar verður stórmál þegar er verið að kæra hér inn á kjörskrá. Hvað ætlar hv. þingmaður þá að segja þá? Bara: Úps, sorrí? Gerum þetta bara almennilega, hv. þingmaður.