148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[15:22]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hægt er að taka undir margt í ræðu hans.

Það er eðlilegt að við spyrjum okkur hvernig það megi vera að við viljum taka eitt atriði út úr öllu þessu mengi sem við erum með fyrir framan okkur þegar við horfum á unga fólkið okkar, sem við berum að sjálfsögðu öll mikla virðingu fyrir? Flest okkar hér inni eiga börn, jafnvel unglinga, og það er ekkert langt síðan sum okkar voru unglingar, alla vega telja sum okkar ekkert vera langt síðan, kannski nokkur ár, þegar við vorum að vasast og pæla í þessum hlutum sjálf.

En hv. þingmaður nefndi eitt atriði áðan, að 16 ára ungmenni gæti ekki kært sig á kjörskrá enda ekki lögráða sjálft. Það hefur ekki sama rétt og þeir sem orðnir eru 18 ára og geta gert slíkt. Ég velti fyrir mér: Ef 16 ára ungmenni vill gera athugasemdir við kosningar, getur sá viðkomandi kært framkvæmd kosninga? Ber þeim sem hafa eftirlit með kosningunum að taka mark á athugasemdum þess sem ekki er lögráða en mætir á kjörstað og kýs og sér að eitthvað er athugavert við kosningarnar? Ég held nefnilega að ekki sé alveg búið að hugsa fyrir öllu sem upp getur komið í þessu ferli öllu saman.

Ég er ekki á móti því að við lækkum kosningaldurinn. Ég er heldur ekki á móti því að við lækkum sjálfræðisaldurinn. Ég er heldur ekki á móti því að við lækkum aldurinn til að ungmenni geti mögulega nálgast eitthvað sem er bannað í dag. Ég velti líka fyrir mér varðandi tóbak og allt það. En ég hef áhyggjur af því að við tökum út eitt svona atriði og hugsum það ekki til enda. Þess vegna hef ég sagt: Samþykkjum málið, frestum gildistökunni þannig að hægt sé að undirbúa og gera það miklu betur en nú stefnir í.