148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[15:24]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að sé alveg rétt hjá hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni að ekki sé búið að hugsa fyrir öllu sem upp getur komið. Þarna kom hv. þingmaður með fleiri dæmi en ég tiltók. Ég er auðvitað ekki búinn að skoða þau sjálfur en þetta eru raunhæf dæmi sem komið geta upp. Þess vegna segi ég: Það er nánast útilokað í mínum huga, nema þá með vandlegum undirbúningi, að slíta þarna á lögræðisaldurs og kosninganna. Það gengur því miður ekki upp.

Ég get alveg sætt mig við það a.m.k. að skoða það að lækka lögræðisaldurinn, og þar með auka réttindi ungs fólks sem ég hef áður minnst á fyrir löngu að ég teldi að skoða ætti alvarlega. En það verður auðvitað ekkert gamanmál þegar við förum að glíma við öll þessi raunhæfu vandamál í kosningunum sjálfum. Og hvernig endar það svo ef öll framkvæmdin fer í rugl? Hvað verður um kosningarnar? Geta þær hreinlega orðið ógildar? Eru það mikil vandkvæði á framkvæmdinni að niðurstaðan verði sú að þær séu bara hreinlega ógildar? Það virðist ekki skipta fólki neinu máli í þessum ágæta þingsal. Málið skal keyrt fram án þess að skoða það nánar.

Ég tók undir og greiddi atkvæði með breytingartillögunni um að láta tímann líða aðeins, láta lögin taka gildi síðar. Þá höfum við alla vega tíma til að skoða þetta mál betur.