148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[15:33]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Brynjari Níelssyni fyrir andsvarið. Ég held að það sé skynsamleg nálgun sem fram kemur hjá hv. þingmanni hvað það varðar að þó að fæstir vilji vera skilgreindir sem kerfiskarlar þá eru kerfiskarlarnir nauðsynlegir. Það verður vera eitthvert lógískt samhengi hlutanna.

Mér sýnist á öllu í þessu máli eins og það er búið að menn séu meðvitað að stíga út úr slíku lógísku skipulagi. Ég held að það sé skynsamlegt sem hv. þingmaður kom inn á hvað það varðar að fara í heildstæða endurskoðun á þessum málum. Þá þurfum við líka að gera upp við okkur hvort við treystum 16 ára börnum til að höndla hluti sem við höfum ekki veitt þeim rétt til að hafa ákvörðunarvald yfir hingað til. En hefur þingmaðurinn skoðun á því hversu langan tíma slík skoðun gæti tekið í samhengi við það að nú er verið að horfa til möguleika? Hér liggur fyrir breytingartillaga um að fresta gildistöku um tiltekinn tíma. Hver væri tímaramminn fyrir slíka skoðun?