148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[15:55]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir spurningarnar. Ég held að farsælast væri að setja af stað vinnu við heildarskoðun í þessum efnum þar sem menn færu yfir réttindi og skyldur barna og unglinga á þessum aldri sem um ræðir, og eitthvað upp fyrir, og bara öll réttindi sem eru aldurstengd með einum eða öðrum hætti. Ég hef ekki í sjálfu sér komið mér upp skoðun á því hvort 16 árin séu rétti aldurinn. En ég vil að það sé samhengi þarna á milli.

Í mínum huga er algerlega augljóst að það þarf að fara saman, rétturinn til að kjósa og bjóða sig fram, svo dæmi sé tekið, því að hv. þingmaður spurði nú sérstaklega um það atriði. En það er þessi tilhneiging til að grauta í kerfinu, flækja það og gera það óskiljanlegt og ógegnsætt, sem við verðum að sporna gegn. Hún er af sama meiði og endalaus flækjustig í skattkerfi og bótakerfi landsmanna. Við verðum að einfalda hlutina, hafa meira samhengi í þeim, hafa þá lógíska. Hluti af því held ég að sé að skoða þessi réttindi öllsömul. Ég held að sú vinna yrði nú helst unnin, án þess að ég hafi hugsað það mikið, annaðhvort í forsætisráðuneyti eða dómsmálaráðuneyti. En ég held að það sé mikils vert að hefja þá vinnu og þá séum við betur skóuð hvað það varðar að taka skynsamlega ákvörðun og breyta þessum reglum ef ástæða er til.

En fremst í röðinni er samræmið og að ekki sé verið að pikka út eitt atriði, ein réttindi, en halda öllu öðru óbreyttu.