148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[16:26]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það kom fram í máli hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar hér áðan að honum þætti óþarfa hraði á þessu máli og það hefði ekki fengið nægilega mikla umfjöllun. Nú er hv. þingmanni náttúrlega kunnugt um að þetta mál hefur verið lagt fram áður, hefur áður fengið umfjöllun, ekki bara hér í þinginu heldur líka úti í samfélaginu og að því leyti til er ég ekki sammála þingmanninum. Málið hefur fengið allnokkra umræðu, ekki bara hér inni. Þannig að hraðahugsunin í þessu á held ég ekki alveg við.

Í mínum huga kom efnisleg afstaða þingsins til málsins fram við atkvæðagreiðslu í gær, þ.e. þingið ákvað að breyta málinu nokkuð til samræmis við þær ábendingar sem komu fram í þingnefnd og við það kom vilji góðs meiri hluta þingmanna fram í málinu, þannig að hann liggur fyrir.

Það sem hins vegar stendur út af er hvort það eigi að klára málið nú þannig að þessi hópur ungmenna fái kosningarrétt nú í vor. Löng ræðuhöld núna við 3. umr. sem gætu gert það að verkum að málið kláraðist ekki, því að þingmenn þekkja náttúrlega þann knappa tímaramma sem við erum með, m.a. út af utankjörfundaratkvæðagreiðslu, mun því ekki hafa önnur áhrif en þau að þessi hópur mun ekki fá kosningarrétt í vor. Þá er kannski spurningin: Vill hv. þingmaður taka á því pólitíska ábyrgð að svo fari?