148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[16:28]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég held að svarið hljóti að liggja í breytingartillögunni sem ég sagðist ætla að flytja hér, að málið fengi afgreiðslu en breytingin tæki gildi seinna, 2020 var nú hugmyndin. Þannig svara ég þessari spurningu hv. þingmanns.

Eflaust er málið búið að fá töluverða umræðu undanfarin þing. Það er nú búið að kjósa býsna oft líka. Það er mikið af nýjum þingmönnum hér sem ekki hafa komið að því að ræða þetta mál eða fjalla um það. Ég verð að viðurkenna það fyrir hv. þingmanni að ég kann ekki alveg þessa sögu um hvernig það leit út fyrst og það allt saman, enda finnst mér það ekki öllu skipta. Auðvitað er gott ef það er búið að laga málið, það er augljóst, en það er fullt af spurningum ósvarað enn sem ég var að velta upp áðan í ræðu minni, t.d. varðandi það ef 16 ára ungmenni eða barn vill kæra sig inn á kjörskrá. Hvernig mun það ganga fyrir sig? Það eru svona spurningar um framkvæmd kosninganna sem flutningsmenn hafa ekki reynt að svara einu sinni, í það minnsta hef ég ekki heyrt þau svör, hvorki í ræðum né andsvörum.

Hv. þingmaður segir að efnisleg afstaða til málsins hafi komið fram í gær. Hátturinn á frumvörpum í þinginu er sá að það eru þrjár umræður um þau. Þau fara til nefndar milli umræðna, svo var með þetta mál líka. Það er því ekki hægt að segja að efnisleg niðurstaða sé komin fram, hún kemur ekki fram fyrr en í lok 3. umr. að sjálfsögðu. Við höfum þekkt dæmi um það í þinginu að menn hafa skipt um skoðun þegar mál hafa farið inn í þingnefndir. Menn voru kannski fylgjandi málinu og fylgjandi því að það færi til þingnefndar í von um einhverjar breytingar, en svo kannski verður engin breyting og þá breyta menn um afstöðu o.s.frv. Þannig að efnisleg afstaða liggur að sjálfsögðu ekki fyrir fyrr en að lokinni þeirri umræðu sem við erum í hér.