148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[16:31]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef það er eini efnislegi munurinn sem út af stendur, hvort þetta eigi að taka gildi í dag eða 9. apríl eða hvað þetta er eða eftir fjögur ár eða eftir tvö ár eða hvað, þá vil ég segja að meginmunurinn er kannski fyrst og fremst sá að það er hér ákveðinn hópur þingmanna sem er býsna hlynntur málinu en vill vanda betur til, vill vanda til undirbúningsins, vill sjá til þess að það verði ekki einhver stórslys á þessari leið. Enn og aftur hafa þingmenn fengið tækifæri til þess að svara hér nokkrum vangaveltum og spurningum en hafa ekki gert það. En það er nefnilega þannig, hv. þingmaður og virðulegur forseti, að þó svo menn presenteri hér að þetta sé lítið mál þá er þetta stórmál. Það verður að vanda til verka, ekki bara varðandi framkvæmdina, heldur líka það sem kemur fram í mörgum umsögnum, m.a. hjá þeim sem eru jákvæðir fyrir málinu, að kynning og fræðsla og upplýsing verður að eiga sér stað. Ég efast um, þótt hér sé kraftaverkafólk á þingi og í (Forseti hringir.) ráðherrastólum, að hægt sé að gera það á þeim tíma sem fram undan er.