148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[16:33]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir góða ræðu. Þarna dró hv. þingmaður fram ýmislegt sem kalla má raunhæf vandamál við framkvæmd kosninga. Ég hef sömu áhyggjur og þingmaðurinn hvað það varðar. Nú hafa margir sem styðja þetta frumvarp látið í veðri vaka að þetta sé ekki mikið mál, hér sé bara verið að breyta úr 18 í 16, bara fjölga um 9.000 kjósendur, það geti ekki verið mikið mál í sjálfu sér, sé í raun og veru einfalt.

En hv. þingmaður hefur sagt að þetta sé risamál og ég tek nú undir það, þetta er risamál. Þetta er risamál að mínu viti af því að það stangast á við önnur réttindi og skyldur ungmenna á þessum aldri. Hv. þingmaður er væntanlega sammála mér um að það blandist ýmsu sem varðar forsjá sem aðrir hafa. Sér hann ekki fyrir sér einhver vandamál í kringum það? Eða er þetta kannski bara smámál og pennastrik?

Ég vil líka nefna það aðeins við hv. þingmann af því að hann hrósar hæstv. menntamálaráðherra mjög, sem ég get alveg tekið undir, að nú hefur menntamálaráðuneytið ekki mikið yfir grunnskólunum að segja. Það varðar fræðslu og kynningu, sem þingmaðurinn telur mikilvæga: Hvernig sér hann fræðslu og kynningu fyrir sér í grunnskólunum? Hver á að sjá um slíkt? Getur menntamálaráðuneytið gert það líka?