148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[16:40]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir ræðu sína. Það sem mig fýsir að vita um er atriði sem hann kom inn á, atriði sem ég nefndi ekki í ræðu minni en ætla að koma inn á í síðari ræðu, en það snýr að því máli sem er nýbúið að taka út úr umhverfis- og samgöngunefnd og varðar fjölda fulltrúa í sveitarstjórnum. Í því samhengi að hv. þingmaður er fyrrverandi sveitarstjórnarmaður í sveitarfélaginu Skagafirði vil ég spyrja hvaða áhrif hann telji sem reynslumaður í sveitarstjórnarumhverfinu að svona mikil breyting hafi. Telur hann að þetta hafi áhrif á kosningabaráttu, það hvernig framboð setji fram kosningamál sín? Eða telur hann til að mynda í því sveitarfélagi sem hann þekkir best að líkur væru til þess að upplýsing um málið allt og kosningarnar lægi einvörðungu í grunnskólanum gagnvart þeim hópi barna sem er enn á grunnskólaaldri og síðan í framhaldsskólanum eða hvar sem 16, 17 ára unglingar eru hverju sinni? Heldur hann að pólitíkin myndi ná talsambandi við þennan aldur? Eða heldur hv. þingmaður að upplýsing vegna þessa verði fyrst og fremst á hendi skólanna þar sem börnin eru við nám? Mér þykir þetta skipta máli, því að þótt skólarnir eigi auðvitað að vera uppfræðendur þá hef ég ekki séð neina sérstaka sýn setta fram á þennan vinkil.