148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[16:45]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það má með sanni segja að þessi sjónarmið rekist á varðandi það hvort sveitarfélögum og sveitarstjórnarfulltrúum sem er treystandi fyrir að ráðstafa fjármunum sveitarfélaga, taka ákvarðanir um byggingu sundlauga, íþróttamannvirkja, um félagsþjónustu og annað, sé treystandi fyrir því að ákveða hvort sveitarstjórnarfulltrúar séu fimm, sjö eða níu. En látum það nú liggja milli hluta í þessum efnum.

Nú kom menntamálaráðuneytið, fulltrúar þess og menntamálaráðherra, á fund hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í gær. Þar viðraði ráðuneytið áhyggjur af því að menn væru ekki tilbúnir þar með kynningarmálin og hvernig þeim yrði háttað gagnvart þeim börnum sem fá kosningarrétt, gangi þessar tillögur í gegn eins og þær liggja hér fyrir. Ef menntamálaráðuneytið er ekki tilbúið, telur hv. þingmaður að sveitarfélögin séu tilbúin (Forseti hringir.) án þess að hafa unnið neinn undirbúning, þau hristi þetta fram úr erminni?