148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[16:46]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Miðað við þær upplýsingar sem við fengum á þessum ágæta fundi þá var nú lítið og fátt um svör frá menntamálaráðuneytinu varðandi þessi plön. En hugsanlega er hægt að galdra eitthvað fram, ég kann ekki að segja það, en þær upplýsingar sem við fengum af þessum fundi voru þær að það var lítið um svör. Enda er það ekkert óeðlilegt. Það getur vel verið að það sé hægt að bregðast við þessu, ég ætla ekki að segja það, vil ekki fullyrða það, en það þarf þá að sýna okkur fram á það.

Ég les það úr umsögnum Sambands íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélaganna að þau eru ekkert undirbúin undir þetta, engan veginn. Það lendir nú kannski mest vinnan á þeim þegar upp er staðið.

Ég er enn á þeim stað að ég held að sé betra að fresta gildistökunni og nota tímann til þess að ná utan um málið. Hugsanlega mætti nota þann tíma til þess að fá til liðs við okkur ungt fólk og fara í gegnum þetta sem við höfum rætt svo oft í þessari umræðu, samræminguna, hvar öll þessi leyfi og mörk eigi að liggja, fara í þá vinnu þannig (Forseti hringir.) að það sé klárt 2020 eða hvenær menn vilja sjá þetta gerast, þ.e. (Forseti hringir.) stóru myndina.