148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[16:48]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Í atkvæðagreiðslu um þetta mál í gær var niðurstaðan varðandi 1. gr. 43 já, 1 nei. Ég sagði nei við þessu máli. Ástæðan fyrir því að ég segi nei er sú að mér finnst það ekki komast inn á topp 10 lista þeirra mála sem við eigum að vera að ræða hér. Ef við lítum öll aðeins inn á við þá veit ég ekki hvort þetta mál kæmist yfirleitt á topp 100 vegna þess að það eru svo mörg önnur mál sem eru miklu brýnni en það. Við erum alltaf að tala um að ekki sé borin nógu mikil virðing fyrir Alþingi, að virðing Alþingis sé ekki upp á marga fiska, hvað þá mörg prósent. Þessi umræða tel ég að auki ekki þá virðingu.

Ef samþykki við þessu frumvarpi, að leyfa 16–18 ára börnum að kjósa í sveitarstjórnarkosningum, yrði t.d. til þess að sveitarfélagið Reykjavík myndi fara að taka sig á og færi eftir dómi þar sem það var dæmt til að borga öryrkjum í Brynjuhúsi í Hátúni sérstakar húsaleigubætur afturvirkt, þá myndi ég segja já. En ég veit að þetta hefur engin áhrif á það.

Þetta frumvarp er ekki einu sinni á topp 10 listanum hjá mér vegna þess að mál númer 1 hjá mér eru eldri borgarar sem svelta, öryrkjar sem svelta. Það ættum við að vera að ræða hér á rauðu ljósi.

Númer 2 þá ættum við líka að vera að ræða um venjulegt fólk úti í samfélaginu sem stundar vinnu sína, vinnur tvær vinnur og jafnvel aukavinnu um helgar til þess að eiga í sig og á. Það er eitt af topp 10 málunum sem við ættum að vera að ræða hér.

Á topp 10, á undan málinu um kosningarrétt 16–18 ára unglinga, er einnig það mál að 1.500 einstaklingar eru á biðlista eftir bæklunaraðgerðum, búnir að bíða í 90 daga eða lengur. Sumt af þessu fólki hefur ekki einu sinni heilsu til þess að fara til Svíþjóðar til þess að fara í aðgerð og láta ríkið borga tvöfalt fyrir það þar. Fólk verður fyrir tjóni af því að gleypa verkjalyf og annað. Nei, við ræðum það ekki. Við erum að að ræða hvort við ætlum að láta 16 til 18 ára börn fá kosningarrétt og það 10 mínútum fyrir kosningar. Hvers vegna í ósköpunum? Við erum að tala þarna um 9.000 börn. Á sama tíma erum við t.d. að eyðileggja frábært starf Hugarafls og geðteymisins þar. Það er að grotna niður. Á sama tíma eru menn í þessum sal að tala um fjölgun öryrkja. Öryrkjar eru orðnir 20.000. Hvers vegna í ósköpunum skyldi það vera þegar 1.500 manns eru á biðlista eftir bæklunaraðgerðum og fólk þarf að vinna tvær vinnur og aukavinnu um helgar og slíta sér út?

Ég myndi líka taka undir málið um kosningarrétt til 16 ára unglinga ef það myndi breyta einhverju fyrir þá drengi, sem ég hef áhyggjur af og eru í þessum aldurshópi, 16–18 ára, sem eru að flosna upp úr skóla, 30% þessara drengja. Breytir þetta einhverju fyrir þá? Nei. Mun þetta auka geðheilbrigði í þessum skólum þannig að þessum drengjum verði hjálpað sérstaklega? Nei, það hefur ekkert með það að gera.

14, 16, 17, 18, 20. Lottótölur á laugardaginn, kannski fyrsti vinningur. En þetta eru ekki lottótölur. 14 ára sjálfráða, 16 ára kjósa í sveitarstjórnum, 17 ára bílpróf, 18 ára lögráða, 20 ára má kaupa áfengi. Var þetta dregið út úr lottói? Getum við ekki sýnt þessum hópi þá virðingu að finna eina tölu og leyfa þeim að fá öll réttindin?

Um daginn kom umboðsmaður barna í þinghúsið. Í þeim hópi barna sem þar komu voru fimm frambærilegar stúlkur. Fyrsta hugsun mín var: Hvar eru drengirnir? Og hvar eru fatlaðir einstaklingar og hreyfihamlaðir? Ég spurði umboðsmann barna að því hvar þessir einstaklingar væru. Svarið var að það næðist ekki til þeirra. Það voru engir drengir sem hægt var að ná í. Þetta voru sem sagt örfáar stúlkur, enginn fatlaður einstaklingur og enginn hreyfihamlaður.

Það veldur mér áhyggjum að láta 16–18 ára krakka kjósa. Við vitum af því að stjórnmálaflokkar hafa boðið ólögráða unglingum upp á bjór og pitsur. Ég er hræddur um að það muni gerast líka í þessu máli.

Hvernig í ósköpunum getum við á sama tíma og við erum að tala um þetta mál gert það að forgangsmáli hérna? Ég spyr: Hvers vegna í ósköpunum? Vegna þess að ég veit að tel það miklu meira forgangsmál að leiðrétta það sem þingið hefur gert með lagasetningum sínum, sem eru ömurlegar lagasetningar sem ég hef áður bent á í þessum ræðustól, eins og að rétta fólki með vinstri hendinni lyfjastyrki, bílastyrki, og rífa þá svo af þeim með hægri og segja: Haha, okkur tókst að plata ykkur.

Það sem er kannski það ömurlegasta við þetta er að í svona málum er það sett þannig upp að það lítur út fyrir á skattaskýrslum og alls staðar að viðkomandi hafi fengið styrki, en svo er það hirt af honum á bak við tjöldin ári seinna.

Ég var að lesa umsögn umboðsmanns barna um frumvarpið. Þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Ekki er kveðið á um í frumvarpinu að börn fái kjörgengi samfara kosningarrétti, en rétt væri að sú afstaða væri rökstudd í greinargerð.

Frá 16 til 18 ára aldurs eru einstaklingar börn og því í forsjá foreldra eða annarra forsjáraðila. Mikilvægt er að löggjafinn meti hvort að forsjáraðili geti með einhverjum hætti haft áhrif á kosningarrétt barna við núverandi aðstæður, til dæmis um aðgengi að upplýsingum fyrir kosningar. Má í þessu sambandi nefna sendingu markpósta, aðgang stjórnmálaflokka að skólum eða nemendafélögum, til dæmis grunnskólum, en lækkun kosningaaldurs mun hafa í för með sér að hluti 10. bekkinga öðlast kosningarrétt. Mikilvægt er að tryggt sé að foreldrar geti ekki með einhverjum hætti haft áhrif á kosningarrétt barna verði kosningaaldur lækkaður.

Á síðustu árum hefur verið lögð áhersla á uppbyggingu ungmennaráða í mörgum sveitarfélögum fyrir börn á aldrinum 13–17 ára. Fram kemur í athugasemdum við 11. gr. æskulýðslaga nr. 70/2007, að ekki séu sett aldursviðmið um ungmennaráð. Þar sé oftast miðað við aldurshópinn 13–17 ára í ungmennaráð og vísað til þess að 18 ára séu ungmennin komin með kosningarrétt og geti þá haft áhrif á val kjörinna fulltrúa með atkvæði sínu. Nauðsynlegt er að meta og taka afstöðu til þess hvort lækkun kosningarréttar eigi að takmarka setu barna 16 ára og eldri í ungmennaráðum sveitarfélaga með vísan í ofangreint.“

Ég tel að við eigum að setja allt þetta í eina tölu, 18 ára. Hætta að vera með fimm tölur og vera bara með eina, 18 ára er rétturinn.

Mér er eiginlega orðavant og ég skil ekki hvers vegna í ósköpunum liggur svona á þessu máli. Þetta eru 9.000 einstaklingar. Miðað við tölfræðina veit ég ekki hversu margir einstaklingar búist er við að muni kjósa. Ég myndi halda 10%, það væri mjög flott. Þá erum við að tala um 900 manns. Það væri bjartsýnasta spáin. Á þessum aldri var ég ekki að pæla í sveitarstjórnarkosningum. Ég var í skóla, iðnnámi. Það hvarflaði ekki að mér á þeim tíma hvað sveitarstjórnir væru að gera.

Það sem ég hef áhyggjur af er hver eigi að uppfræða þessi ungmenni um pólitískt val. Ég myndi telja alveg pottþétt miðað við drengina mína — þeir eru nú allir komnir yfir þennan aldur núna, þeir eru ekki í þessum aldurshópi, en ef þeir væru á þessum aldri og væru að fara að kjósa og ég færi með þeim þá geri ég ráð fyrir að þeir myndu spyrja: Hvað á ég að kjósa? Þá ég myndi segja við þá: Þið verðið bara að hugsa um það sjálfir, þið verðið bara að reyna að finna út hvaða flokk þið viljið styðja, hvaða málefni ykkur finnst þið endilega þurfa að kjósa. Myndu þeir gera það, drengirnir mínir? Nei, þeir myndu miklu frekar fara í tölvuleik.

Það er nefnilega vandamálið að á þessum aldri eru þau ekkert að hugsa um þetta. Ég segi fyrir mitt leyti að ég vona að við höfum kjark og þor til þess að segja nei við þessu, svæfum þetta bara. Ræðum þetta almennilega. Gefum okkur góðan tíma. Það liggur ekkert á. Það er enginn heimsendir í sjónmáli. Það eina sem gerist er að einhverjir, kannski 10% ungmenna, fá ekki að kjósa í maí. Ég sé ekki að það muni breyta nokkru máli í þeim kosningum sem fram undan eru. Þar af leiðandi ætti það ekki að verða neitt vandamál.

Virðing Alþingis hefur ekki verið upp á marga fiska. Reynum að auka virðingu Alþingis og sýnum að við erum hæf til þess að taka á málum sem skipta virkilega máli, málum sem varðar fólk úti í samfélaginu sem er að vinna, fólk sem þarf á því að halda, sem sveltur, sem á ekki fyrir mat. Tölum um það. Setjum það í forgang. Svo skulum við ræða þetta mál.