148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[17:02]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kom eiginlega tvennt svolítið merkilegt fram í ræðu hv. þingmanns sem ég held að margir hafi ekki alveg áttað sig á. Það voru þær vangaveltur til að mynda um áhrif foreldra á börn í krafti þess að vera forsjáraðilinn. Það hefur alveg vantað þá umræðu í þessu máli. Það er líka annað atriði merkilegt sem hv. þingmaður kom inn á sem tengist þessu svolítið, af því að við erum alltaf að verja börnin okkar. Mér er minnisstæð umræðan sem varð í kringum kosningar hjá ungliðahreyfingum stjórnmálaflokkanna þegar var verið að bjóða krökkunum frítt far, jafnvel flugferð, til að koma og kjósa, ég tala nú ekki um þegar þeim var boðinn bjór, þá varð allt vitlaust. Þá þurfti að vernda börnin gegn þessu. Þá var það eiginlega barnaverndarmál, nánast, að stjórnmálahreyfingarnar væru ekki að djöflast í þeim ungmennum. En það er svolítið merkilegt í kringum þessa umræðu, því að nú er það allt í einu komið þannig að börnin eiga bara að fá að kjósa, að vísu ekki að vera kjörgeng, en þetta er mjög merkilegt.

Það er kannski eitt af því að hv. þingmaður talaði um eina tölu og vildi að talan væri 18. Ég er ekki viss um að sú tala sé endilega rétt. Mér finnst talan 17 ekkert verri, eða 16 jafnvel. En ég vil taka þá umræðu, og auðvitað þýðir það þá að fólkið á að vera lögráða 16 eða 17 ára, (Forseti hringir.) þá náum við ekki þeim úrræðum eins og við þurfum stundum þegar eitthvað fer úrskeiðis hjá börnunum.