148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[17:05]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég er alveg sammála honum vegna þess að ég held að við foreldrar séum í þeirri aðstöðu að geta haft gífurleg áhrif á börnin okkar. En ég er líka í þeirri stöðu og með þá skoðun að það eigum við ekki að gera. Við eigum að leyfa þeim að hafa frjálsan vilja og frjálsa hugsun, en á þessum aldri er ég hræddur um að það gangi ekki upp. Ég veit og ég man eftir því, áður en ég fékk kosningarrétt, að ég fór í partí hjá stjórnmálaflokkunum og þar var áfengi haft um hönd. (Gripið fram í: … sjálfsagt að …) Maður var undir tvítugu, þannig að það er auðvitað eitt af því sem ég óttast, vegna þess að við höfum orðið vitni að því og þetta hefur komið upp. Þetta er virkilega alvarlegt mál. Unglingar eru svo móttækilegir á þessum aldri.

Ég tel hitt líka að á þessum aldri eru þau ekkert að hugsa um nákvæmlega sveitarstjórnarkosningar, það er bara allt annað sem þau eiga að vera að hugsa um. Þau eiga að vera í námi. Þau eiga að hafa gaman. Þau eiga bara að skemmta sér með jafnöldrum sínum. Látum pólitíkina koma seinna. Mér finnst alveg sjálfsagt að við hugsum um hvort talan á að vera 16 ára, 17, 18 19 eða 20 ára, ég er einhvern veginn fastur í 18 árum. En það er ekkert heilög tala fyrir mér. Ég segi bara allt í lagi, ræðum það og gefum okkur góðan tíma í það.