148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[17:08]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er algjörlega sammála þessu. Við hljótum að bera það mikla virðingu fyrir börnunum okkar að við gerum þau kjörgeng og lögráða áður en við látum þau kjósa. Mér finnst það svo eðlilegt og sjálfsagður hlutur að mér er það eiginlega óskiljanlegt að það skuli ekki vera gert. Og hitt, hvers vegna í ósköpunum við gefum okkur ekki góðan tíma í þetta. Af hverju þarf þetta að gerast tíu mínútum fyrir sveitarstjórnarkosningar? Hvað liggur svona á? Hvers vegna í ósköpunum — ég veit að það eru sveitarstjórnarkosningar vonandi bara á fjögurra ára fresti og þær verða þar af leiðandi ekki fyrr en eftir fjögur ár, en hvað segir það okkur? Það gefur okkur góðan tíma til þess að gera — hvað? Tala um málið, finna lendingu, gera krakkana kjörgenga, lögráða, og ákveða við hvaða aldur á að fá að kjósa til þingkosninga, til sveitarstjórnarkosninga, fá fjárræði, kaupa áfengi o.s.frv. Ræðum þetta og reynum að finna eina tölu en ekki vera með fimm lottótölur (Gripið fram í.)í þessu.

Eins og ég segi, mér finnst þetta mál ekki skipta neinu og vera svo langt fyrir neðan okkar virðingu að knýja þetta fram tíu mínútum fyrir kosningar. Þess vegna sagði ég nei í gær. Þess vegna mun ég segja áfram nei við þessu, vegna þess að ég tel mig ekki geta sett þetta í neinn forgang og ætla mér ekki að setja það nokkurn tímann í neinn forgang fyrir þessar kosningar. (Gripið fram í.) Ég skal láta það í forgang fyrir næstu kosningar eftir fjögur ár, alveg sjálfsagt.